U21 karla - Ísland úr leik eftir tap gegn Úkraínu
Lið Íslands skipað leikmönnum 21 árs og yngri tapaði lokaleik sínum í undankeppni EM 2017 gegn Úkraínu í kvöld. Leikurinn endaði 2-4 fyrir gestina en rigning og rok settu svip sinn á leikinn. Íslenska liðið endar því í 3. sæti riðilsins og er úr leik að þessu sinni.
Íslenska liðið átti fínustu kafla í fyrri hálfleik og var það Daníel Leó Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu. Gestirnir settu boltann í netið rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Úkraínumenn skoruðu næstu tvö mörk leiksins, hið fyrra skoraði Andriy Boryachuk á 56. mínútu og Artem Besedin kom gestunum svo yfir á 75 mínútu. Elías Már Ómarsson náði svo að jafna á 88. mínútu en aðeins mínútu síðar gerðu Úkraínumenn út um vonir Íslendinga um að tryggja sér þátttökurétt á lokamótinu í Póllandi næsta sumar þegar Andriy Boryachuk skoraði annað mark sitt í leiknum og þriðja mark gestanna. Í uppbótartíma fékk markaskorarinn Artem Besedin að líta rauða spjaldið en það kom ekki að sök fyrir gestina sem bættu við fjórða og síðasta markinu þegar aðeins örfáar mínútur lifðu af leiknum.
Ísland endaði í þriðja sæti riðilsins en bæði Makedónía og Frakkar unnu leiki sína í kvöld og voru það því Makedóníumenn sem tryggðu sér sæti á EM í Póllandi á næsta ári.