• sun. 09. okt. 2016
  • Landslið

Undankeppni HM 2018 - Frábær frammistaða gegn Tyrkjum

Island---Tyrkland-HM-2018-1

Íslendingar unnu öruggan 2 - 0 sigur á Tyrkjum á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn var í þriðju umferð undankeppni HM 2018.  Bæði mörk Íslands komu í fyrri hálfleik og var sigurinn síst of stór, íslenska liðið réð ferðinni allan leikinn og var sterkari aðilinn frá upphafi til enda.  Frábær byrjun á undankeppninni.

Frá upphafi var íslenska liðið sókndjarft og skapaði sér góð færi strax í byrjun.  Fyrsta markið lét þó bíða nokkuð eftir sér en á 42. mínútu átti Theódór Elmar Bjarnason gott skot að marki Tyrkja, sem breytti um stefnu af varnarmanni og endaði í markinu.  Aðeins tveimur mínútum síðar skallaði Kári Árnason boltann inn fyrir vörn Tyrkja þar sem Alfreið Finnbogason hristi sig lausan og skoraði með góðu skoti frá vítateigslínu.

Yfirburðir Íslendinga héldu áfram í síðari hálfleik og gáfu þeir gestunum engin færi á sér.  Mörkin urðu ekki fleiri, þrátt fyrir ágætis færi og öruggur sigur í höfn.  Ísland hefur nú 7 stig, eftir þrjá leiki, eins og Króatar en markatala þeirra er hagstæðari og sitja því í efsta sætinu sem stendur.  Næsti leikur Íslands verður einmitt gegn Króötum ytra og fer hann fram 12. nóvember.  Í hinum leikjum kvöldsins í riðlinum lögðu Króatar Finna á útivelli, 0 - 1.  Úkraínumenn lögðu svo Kósóvó, 3 - 0.

Smelltu hérna til að sjá myndasafn úr leiknum.