U19 karla - Tap gegn Úkraínu í fyrsta leik
Strákarnir í U19 töpuðu gegn Úkraínu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM en riðillinn er leikinn í Úkraínu. Lokatölur urðu 2 - 0 en markalaust var í leikhléi.
Jafnræði var með liðinum lengst af þó svo að heimamenn hafi átt fleiri marktilraunir. Það var svo á 77. mínútu að það dró til tíðinda þegar skot Úkraínumanna breytti um stefnu af varnarmanni og endaði í markinu. Þremur mínútum síðar fékk Jón Dagur Þorsteinsson sína aðra áminningu og þar með brottvísun og stuttu síðar bættu heimamenn við öðru marki. Róðurinn var þá orðinn erfiður og heimamenn fögnuðu sigri í leikslok.
Í hinum leik riðilsins gerðu Lettland og Tyrkland jafntefli, 2 - 2 en Ísland mætir Tyrkjum á laugardaginn. Tvær efstu þjóðirnar komast áfram í milliriðla og er því mikil barátta framundan hjá strákunum gegn Tyrkjum og Lettum.