• mið. 05. okt. 2016
  • Landslið

U21 karla - Sigur á Skotlandi og úrslitaleikur gegn Úkraínu

Island-Skotland-u21-kk-nokkrar-003

U21 landslið karla leikur hreinan úrslitaleik um æsti í lokakeppni EM 2017 í Póllandi en liðið vann 2-0 sigur á Skotlandi í kvöld. Vinni Ísland sigur á Úkraínu þann 11. október þá er farseðillinn á EM tryggður. 

Aðstæður voru ekki beint þær bestu á Víkingsvelli en mikið rok var allan leikinn og grenjandi rigning. Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill en seinni hálfleikur var ágætasta skemmtun. Strax á 47. mínútu komst Ísland yfir í leiknum þegar Aron Elís Þrándarson skoraði laglegt mark eftir sendingu frá Böðvari Böðvarssyni. Á 51. mínútu fengu Skotar vítaspyrnu þegar Rúnar Alex, markmaður, braut af sér í vítateignum en Rúnar gerði sér lítið fyrir og varði vítið. 

Það var svo á 66. mínútu að Ísland komst í 2-0 en þá skoraði Elías Már Ómarsson skoraði þá glæsilegt mark eftir undirbúning Kristjáns Flóka Finnbogasonar. Fleiri mörk voru ekki skoruð og 2-0 sigur niðurstaðan. 

Það er því ljóst að Ísland leikur úrslitaleik við Úkraínu þann 11. október á Laugardalsvelli um sæti á EM. Íslenskur sigur tryggir Íslandi sæti í lokakeppni EM 2017 í Póllandi.

Við hvetjum alla að fjölmenna á Laugardalsvöllinn þann 11. október og styðja við bakið á strákunum okkar. Miðasala verður kynnt á næstu dögum.