Knattspyrnuæfingar fyrir konur með fötlun
Íþróttasamband fatlaðra og Knattspyrnusamband Íslands hafa undanfarin ár unnið að því að efla knattspyrnuiðkun meðal fatlaðra.
Mjög fáar stelpur / konur með fötlun æfa knattspyrnu en nú fá þær tækifæri til að taka fyrstu skrefin og kynnast skemmtilegri íþrótt.
Ásgerður Baldursdóttir, fyrirliði mfl. kvenna hjá Stjörnunni, mun hafa umsjón með æfingunni en henni til halds og trausts verða stelpur úr 3. flokki Stjörnunnar. Leikmenn úr A landsliði kvenna, sem nýverið tryggði sér sæti á EM í Hollandi á næsta ári, mæta á svæðið og heilsa upp á þátttakendur, gefa plaköt, eiginhandaráritanir og hægt verður að fá mynd af sér með landsliðsstelpunum.
Allir sem mæta og taka þátt á æfingunni fá bolta, plakat, bol og tvo miða á landsleik U21 árs landsliðs Íslands og Úkraínu sem fram fer á Laugardalsvelli 11. október nk.