• mán. 19. sep. 2016
  • Landslið

35 ár frá fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu

Alidkv1981-0002
Alidkv1981-0002

Leikur Íslands gegn Skotlandi á morgun verður merkilegur fyrir margar sakir. Farseðillinn á EM í Hollandi hefur nú þegar verið tryggður en einnig eru liðin 35 ár frá því að íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu lék sinn fyrsta leik.

Það er vel við hæfi að Ísland mæti Skotlandi á 35 ára afmæli kvennalandsliðsins því fyrsti leikur liðsins var einmitt gegn Skotum. Leikurinn fór fram ytra, nánar tiltekið í Dumbarton, og endaði með 3-2 sigri Skotlands. Bryndís Einarsdóttir og Ásta B. Gunnlaugsdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Ýmislegt merkilegt hefur gerst síðan fyrsti landsleikur Íslands fór fram og ber helst að nefna þátttöku liðsins á tveimur Evrópumótum. Fyrst á EM 2009 í Finnlandi þar sem liðið var í firnasterkum riðli með Frökkum, Norðmönnum og Þjóðverjum en Ísland datt út í riðlakeppninni. Fjórum árum síðar voru Stelpurnar okkar mættar til leiks á EM 2013 í Svíþjóð þar sem liðið komst alla leið í 8-liða úrslit en var þar slegið úr keppni af sænska liðinu. Þá hefur liðið oft verið nálægt því að komast á HM og náð góðum árangri á hinu árlega Algarve móti sem haldið er í Portúgal.

Stærsti sigur íslenska liðsins frá upphafi kom gegn Eistlandi í september árið 2009 þegar Ísland vann 12-0 í eftirminnilegum leik. Framganga Íslands í kvennaknattspyrnu hefur hæst skilað liðinu í 15. sætið á heimslista FIFA en liðið situr nú í 16. sæti.

Leikurinn gegn Skotum á þriðjudaginn kemur verður leikur númer 214 hjá íslenska liðinu og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á völlinn, halda upp á tímamótin, og hvetja stelpurnar alla leið á EM 2017!