• lau. 17. sep. 2016
  • Landslið

Sex leikmenn heiðraðir fyrir að leika fleiri en 100 leiki fyrir kvennalandsliðið

Island-Slovenia-kvk-stemmning-001

Í tengslum við landsleikina gegn Slóveníu og Skotlandi mun UEFA heiðra sex knattspyrnukonur sem hafa náð þeim merkilega áfanga að spila yfir 100 leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu. Allar hafa þær spilað stórt hlutverk fyrir íslenska liðið.

Edda Garðarsdóttir lék 103 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Sá fyrsti kom í 3-2 sigri gegn Úkraínu í september árið 1997 í undankeppni HM. Edda spilaði á EM árið 2009 og hún spilaði sinn seinasta landsleik í tapi gegn Skotlandi í vináttulandsleik í júní árið 2013. Hún skoraði fjögur mörk á ferli sínum með landsliðinu.

Dóra María Lárusdóttir er mætt aftur í landsliðið eftir tveggja ára fjarveru en hennar seinasti leikur var í 9-1 sigri gegn Serbíu í undankeppni HM 2015. Hún á alls 108 landsleiki að baki en sá fyrsti kom í fræknum 10-0 sigri gegn Póllandi árið 2003. Dóra kom inn á sem varamaður í leiknum og skoraði seinasta mark íslenska liðsins. Hún hefur skorað 18 mörk fyrir landsliðið.

Katrín Jónsdóttir stóð eins og klettur í hjarta varnar íslenska liðsins um árabil og var lengi fyrirliði liðsins. Fyrsti landsleikur hennar var gegn Skotum í vináttuleik árið 1993 en hún spilaði alls 133 landsleiki. Hún fór fyrir íslenska liðinu á EM árið 2009 og 2013 áður en hún lék sinn seinasta leik með landsliðinu í 2-0 tapi gegn Sviss í undankeppni HM 2015. Katrín var markheppin af varnarmanni að vera og skoraði 21 mark fyrir landsliðið og komu mörg þeirra eftir föst leikatriði.

Hólmfríður Magnúsdóttir var á sínu nítjánda aldursári þegar hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2003 en það var vináttulandsleikur gegn Bandaríkjunum. 37 landsliðsmörkum síðar eru leikirnir nú 105 talsins og er hún enn lykilmaður í íslenska liðinu. Hún lék með Íslandi á EM 2009 og 2013 og stefnir ótrauð á sitt þriðja stórmót í Hollandi á næsta ári.

Þóra Björg Helgadóttir var á sínum tíma einn allra besti markvörður Evrópu. Hún stóð á milli stanganna í 108 leikjum hjá landsliðinu. Ekki er nóg með að hún hafi hvað eftir annað haldið marki íslenska liðsins hreinu, hún skoraði líka eitt mark fyrir landsliðið. Það kom í 9-1 sigri gegn Serbíu í undankeppni HM 2015 en markið skoraði hún úr vítaspyrnu. Það var jafnframt seinasti landsleikur hennar. Hún lék sinn fyrsta landsleik í 1-0 tapi gegn Bandaríkjunum árið 1998.

Margrét Lára Viðarsdóttir er markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi. Hún opnaði markareikning sinn í sínum fyrsta landsleik sem var í 4-1 sigri gegn Ungverjalandi árið 2003 og Margrét hefur ekki hætt að skora síðan. Í 108 leikjum hefur hún skorað 77 mörk sem verður að teljast mögnuð tölfræði. Hún er hvergi nærri hætt að skora og mun vafalaust skila boltanum oft í netið á næstu árum.