• þri. 13. sep. 2016
  • Landslið

Mikill áhugi á íslenska landsliðinu meðal Vestur Íslendinga í sumar

Island---Kanada-2016-KSI

Á liðnu sumri fylgdust Vestur íslendingar í Kanada grannt með gengi íslenska liðsins á EM í Frakklandi.  Frændur okkar söfnuðust saman til að fylgjast með gengi liðsins og þegar á leið jókst áhuginn þannig að aðrir Kanadamenn slógust í hópinn.  Tímaritið Lögberg - Heimskringla, sem fagnar í ár 130 ára afmæli, gerði landsliðinu m.a. góð skil. 

Nýr sendiherra Íslands í Kanada, Þórður B. Guðjónsson hafði áhuga á að leggja tímaritinu lið með tenginu við þann mikla áhuga sem kviknaði meðal Vestur íslendinga á íslenskri knattspyrnu í sumar, m.a. fyrir tilstuðlan blaðsins.  Upp kom sú hugmynd að fá landsliðstreyju áritaða af leikmönnum karlalandsliðsins sem verður boðin upp til stuðnings útgáfu blaðsins.  Afraksturinn, tvö sett af búningi landsliðsins árituðum af strákunum, voru svo afhent Þórði á Laugardalsvelli í dag. Það voru þau Gísli Gíslason, Guðrún Inga Sívertsen og Ragnhildur Skúladóttir, öll úr stjórn KSÍ sem afhentu Þórði treyjurnar góðu.