• þri. 13. sep. 2016
  • Landslið

A kvenna – Undirbúningur fyrir leikina gegn Slóveníu og Skotlandi í fullum gangi

A-kvenna-Makedonia

Stelpurnar okkar í A landsliði kvenna eru komnar á fullt í undirbúningi fyrir leikina mikilvægu gegn Slóveníu og Skotlandi. Um er að ræða síðustu tvo leiki liðsins í undankeppni EM 2017, fyrri leikurinn er gegn Slóveníu og fer hann fram föstudaginn 16. september kl. 18.45 en síðari leikurinn verður þriðjudaginn 20. september kl. 17.00. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Hópurinn hefur nú þegar tekið tvær æfingar á Laugardalsvelli auk þess sem haldnir hafa verið fundir þar sem hefur verið farið yfir verkefnin sem framundan eru.

Árangur íslenska liðsins í undankeppninni fram til þessa er svo sannarlega magnaður þar sem liðið hefur unnið alla leiki sína í riðlinum með markatöluna 29-0. Ljóst er að mikill hugur er í stelpunum okkar sem ætla sér að tryggja farseðilinn í lokakeppnina í Hollandi. Miðasala fyrir leikina gengur vel en fólk er sérstaklega hvatt til að tryggja sér miða í gegnum miðasölukerfi hjá www.midi.is.