U21 karla - Góðir möguleikar þrátt fyrir tap í Frakklandi
U21 karla tapaði í 2-0 gegn sterku liði Frakka í undankeppni EM. Frakkarnir voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum og komust yfir snemma í leiknum. Corentin Tolisso kom franska liðinu yfir á 10. mínútu þegar hann komst einn í gegn.
Hann var aftur á ferðinni á 62. mínútu leiksins þegar hann skallaði boltann yfir Rúnar Alex, markmann Íslands. Ekki voru skoruð fleiri mörk í leiknum þrátt fyrir ágæt tækifæri beggja liða.
Íslenska liðið varðist vel í leiknum en hraði franska liðsins reyndist liðinu erfiður. Ísland er því í 3. sæti riðilsins eftir tapið en Makedónía tyllti sér á toppinn með 2-0 sigri á Norður Írlandi. Úkraína vann 4-0 sigur á Skotlandi og er staðan í riðlinum því þannig að Makedónía er efst með 18 stig, Frakkar eru með 17 stig, Ísland er með 15 stig en Úkraína er komið með 10 stig eftir sigurinn í dag. Skotar eru með 8 stig og Norður Írar eru með 1 stig á botni riðilsins.
Ísland á tvo leiki eftir í riðlinum sem eru á heimavelli en það er gegn Skotlandi og Úkraínu. Frakkar og Makedónía eiga einn leik eftir.
Ísland er ennþá í góðri stöðu í riðlinum en með því að vinna leikina heima þá er sæti í úrslitakeppni EM 2017 tryggt. Ísland getur mest náð 6 stigum með tveimur sigrum og farið í 21 stig, Frakkar geta með sigri náð 20 stigum og Makedónía getur komist í 21 stig með sigri í sínum seinasta leik en Ísland stendur betur í innbyrðis viðureignum við Makedóníu og myndi því komast áfram með því að vinna sína leiki.
Viðtöl úr leiknum má finna á YouTube-síðu KSÍ.