• mán. 05. sep. 2016
  • Fræðsla

Grænlensk börn heimsóttu Laugardalsvöll

Graenlensk-born-2

Í síðustu viku fékk Knattspyrnusambandi góða heimsókn þegar 25 börn, ásamt 6 manna fylgdarliði, heimsótti sambandið á Laugardalsvöll.  Börnin eru 11 ára gömul og koma frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi. Þau eru hér í rúmlega tvær vikur, fara í sundkennslu tvisvar á dag, en engar sundlaugar eru á Austur Grænlandi, fara í skóla í Kópavogi og kynnast þannig íslensku samfélagi og jafnöldrum.

Það er Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, sem skipuleggur verkefnið og er þetta ellefti árgangurinn sem hingað kemur.

Krakkarnir fengu að skoða Laugardalsvöll og fræðast aðeins um starfsemi Knattspyrnusambandsins.  Þá tók Halldór Björnsson, landsliðsþjálfari U17 karla, krakkana á æfingu á Valbjarnarvelli og ríkti þar mikil gleði og kátína.  Að lokum voru krakkarnir leystir út með gjöfum enda miklir stuðningsmenn íslensku landsliðanna.

Mikill knattspyrnuáhugi er á Grænlandi, og okkar næstu grannar fylgdust vel með sigurgöngu íslenska liðsins á EM í sumar. Aðstaða til knattspyrnuiðkunar á austurströndinni er víðast hvar léleg, en í sumar var þó fyrsti gervigrasvöllurinn vígður í Scoresby-sundi, afskekktasta þorpi norðurslóða.