A karla - Undirbúningur fyrir fyrsta leikinn í undankeppni HM í fullum gangi
Strákarnir okkar undirbúa sig nú af kappi fyrir fyrsta leikinn í undankeppni HM 2018. Fyrsti leikur liðsins verður mánudaginn 5. september og hefst hann kl. 18.45 að íslenskum tíma.
Hópurinn dvelur nú við æfingar í Frankfurt í Þýskalandi en mun á laugardaginn ferðast til Kiev í Úkraínu. Góð stemning er í hópnum og ljóst að metnaður leikmanna, þjálfara sem og annarra starfsmanna liðsins er mikill, í lokakeppnina í Rússlandi 2018 ætlar hópurinn að fara.
Æft hefur verið einu sinni á dag síðan á þriðjudag og verður síðasta æfingin í Frankfurt í dag föstudag. Leikmenn hafa tekið vel á því á æfingum og hafa þjálfararnir haft á orði að ánægjulegt sé að sjá hversu mikill kraftur og dugnaður er til staðar, að augljóst sé að menn séu að koma vel stemmdir til leiks.
Leikmenn og starfslið fengu frí að lokinni æfingu og fundi í dag og notuðu margir hverjir tímann til að skoða sig um á Frankfurt svæðinu en veðrið hefur leikið við hópinn þá daga sem hér hefur verið dvalið.
Eins og kunnugt er mun leikurinn á mánudag verða spilaður fyrir luktum dyrum, þ.e. án áhorfenda. Það verða ekki síður viðbrigði fyrir okkar leikmenn heldur en þá úkraínsku þar sem síðasti leikur okkar liðs var fyrir framan 80 þúsund áhorfendur á Stad de France. Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt fyrir leikmenn að finna hvatningu innra með sér og frá liðsfélögunum þar sem þeir geta ekki sótt hana í umhverfi leiksins.
Leikurinn á mánudag verður í beinni útsendingu hjá RÚV en leikurinn hefst, eins og áður var skrifað, kl. 18:45 að íslenskum tíma.