• fös. 05. ágú. 2016
  • Landslið

A karla - Helgi Kolviðsson ráðinn sem aðstoðarlandsliðsþjálfari

Helgi-Kolvidsson

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er samningsbundinn næstu tvö árin eða fram yfir lokakeppni HM í Rússlandi. Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari, mun áfram starfa með landsliðinu en hann hefur séð um markmannsþjálfun landsliðsins undanfarin ár. Helgi Kolviðsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarlandsliðsþjálfari en hann var í starfsliði landsliðsins á EM í Frakklandi.

Þá hefur Sebastian Boxleitner verið ráðinn sem styrktarþjálfari landsliðsins en Sebastian hefur víðtæka reynslu af styrktar- og hraðaþjálfun.

Helgi Kolviðsson er fyrrverandi landsliðsmaður sem lék 30 leiki fyrir Íslands hönd. Helgi lék á Íslandi árin 1988-1994 með ÍK og svo HK áður en hann fór í atvinnumennsku. Erlendis lék Helgi með sex félagsliðum áður en hann fór að starfa við þjálfun. Sem þjálfari starfaði Helgi í Þýskalandi og Austurríki. 

Helgi var í starfsliði íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi þar sem hann leikgreindi mótherja Íslands á mótinu en Helgi er með UEFA Pro þjálfunargráðu. 

Nánari upplýsingar um Helga Kolviðsson.


Sebastian Boxleitner var ráðinn styrktarþjálfari karlalandsliðsins Sebastian Boxleitner er styrktar- og þolþjálfari sem sérhæfir sig í þjálfun til að auka á styrk, hraðaþjálfun, endurhæfingu og til að fyrirbyggja meiðsli. Sebastian starfar m.a. hjá St. Gallen í Sviss en einnig sér hann um einkaþjálfun fjölmargra leikmanna hjá ýmsum félags- og landsliðum.

Nánari upplýsingar um Sebastian Boxleitner.