• sun. 10. júl. 2016
  • Landslið

EM 2016 - Portúgal er Evrópumeistari

Portugal

Portúgal varð í kvöld Evrópumeistari í knattspyrnu eftir að vinna heimamenn í Frakklandi 1-0 eftir framlengingu. Eder skoraði eina mark leiksins á 109. mínútu leiksins og það tryggði Portúgal sinn fyrsta Evrópumeistaratitil. 

Portúgal varð fyrir skakkaföllum snemma í leiknum þegar Cristano Ronaldo fór meiddur af velli en hann haltraði af velli þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum. Frakkar voru skeinuhættari í leiknum en það mátti merkja þreytu hjá leikmönnum í seinni hálfleik og í framlengingunni. Það nýtti Portúgal sér með því að skora markið sem skildi liðin að. 

Ísland var í riðli með Portúgal á EM og gerði 1-1 jafntefli þar sem Nani skoraði mark Portúgal en Birkir Bjarnason jafnaði metin fyrir Ísland í leiknum. Tölfræði Portúgal er áhugaverð en liðið vann aðeins einn leik í venjulegum leiktíma á mótinu en það var gegn Wales. Hinir leikirnir enduðu allir með jafntefli sem skiluðu liðinu stigi eða fóru í framlengingu.

 Það sama var upp á teningnum í kvöld og nú skoraði Portúgal í framlengingu sem tryggði þeim langþráðan Evrópumeistaratitil. 

Til hamingju með Evrópumeistaratitilinn Portúgal!