U17 kvenna - Jafntefli gegn Frökkum
Stúlkurnar í U-17 gerðu jafntefli við Frakkland í dag. Eftir góða byrjun okkar stúlkna skoruðu Frakkarnir á 25. mínútu og var það nokkuð gegn gangi leiksins en markið kom upp úr afar vel útfærðri hornspyrnu. Þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés.
Íslenska liðið hélt áfram að ver með undirtökin í leiknum og á 55. mínútu skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir eftir hraða sókn og glæsilega tilburði en Sveindís kom inn á sem varamaður einungis fjórum mínútum áður. Þrátt fyrir góða baráttu náðum við ekki að skora meira þó svo við værum alltaf líklegri en þær frönsku og jafntefli varð því niðurstaðan. Stúlkurnar hafa 4 stig eftir riðlakeppnina og það gefur annað hvort 2. eða 3. sætið í riðlinum, fer eftir úrslitum í leik Dana og Norðmanna síðar í dag.