U17 kvenna - Öruggur sigur á Dönum
Stúlkurnar í U-17 sigruðu Dani nokkuð auðveldlega á Norðurlandamótinu sem haldið er í Noregi. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 18.mínútu og var þar að verki Stefanía Ragnarsdóttir.
Á 34.mín komst Ísland í 2-0 þegar Alexandra Jóhannsdóttir skoraði glæsilegt mark með skalla. Svona var staðan í hálfleik. Á 63.mínútu kom Sveindís Jane Jónsdóttir okkur í 3-0 með glæsilegu marki. Á 64.mínútu voru gerðar 2 breytingar á liðinu, inná komu Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Karólína Jack fyrir Stefaníu og Bergdísi Fanneyju.
Einungis 2 mínútum síðar skoraði Karólína Lea glæsilega og kom okkur í 4-0. Danir minnkuðu muninn í 4-1 stuttu síðar. Á 70.mínútu gerðum við þrefalda breytingu, inná komu Daníela Dögg Guðnadóttir, Sóley María Steinarsdóttir og Fríða Halldórsdóttir fyrir Maríu Björgu, Valdísi Björgu og Elínu Helgu.
Á 74.mínútu gerðum við síðustu breytinguna þegar Birta Guðlaugsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir komu inná fyrir Katrínu Hönnu og Sveindísi Jane. Á lokamínútum leiksins skoruðu Danirnir svo annað mark en komust ekki lengra og því er verðskuldaður 4-2 sigur okkar stúlkna staðreynd.
Texti frá Hönnu Dóru Markúsdóttur.