EM 2016 - ÍSLAND Í 8-LIÐA ÚRSLIT!
Ísland vann England 2-1 í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi í kvöld. Ísland lék skínandi góðan leik og átti sigurinn fyllilega skilið. Mörk Íslands komu bæði í fyrri hálfleik en það voru samt Englendingar sem komust yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu.
England skoraði á 5. mínútu leiksins en Wayne Rooney skoraði úr víti sem dæmt var á Hannes Þór Halldórsson. Það leiðu samt ekki nema tvær mínútur þar til Ísland var búið að jafna en eftir langt innkast frá Aroni Einari þá fékk Ragnar Sigurðsson, maður leiksins, boltann og setti skoraði hann laglegt mark.
Þrátt fyrir að það hafi legið á íslenska liðinu þá komumst við yfir á 19. mínútu þegar Kolbeinn Sigþórsson sólaði varnarmenn Englendinga upp úr skónum áður en hann skoraði glæsilegt mark.
Enska liðið náði ekki að skapa sér teljandi færi langtímum saman en Ísland fékk ef eitthvað er hættulegri færi til að gera út um leikinn.
Það er því ljóst að Ísland leikur við heimamenn Frakka í 8-liða úrslitum á Stade de France en leikurinn fer fram sunnudaginn 3. júlí og hefst hann klukkan 19:00.
Viðtöl við þjálfara og leikmenn koma á YouTube síðu KSÍ.