• mán. 20. jún. 2016
  • Landslið

EM 2016 - Fjölmiðlafundur í Annecy

EM-2016-20juni-Fjolmidlafundur

Íslenska landsliðið hélt fjölmiðlafund í dag þar sem ræddur var komandi leikur við Austurríki og farið yfir leikinn við Ungverja. Varnarmennirnir Ragnar Sigurðsson, sem varð þrítugur í gær, og Ari Freyr Skúlason sátu fyrir svörum ásamt Heimi Hallgrímssyni.

Ragnar og Ari sögðu m.a. annars leikmenn Íslands vera alfarið að hugsa um leikinn gegn Austurríki og leikurinn gegn Ungverjum sitji alls ekki í leikmönnum. Liðið hafi góðan tíma í að gíra sig upp fyrir næsta leik. Engin þreyta væri í leikmönnum og allir myndi gefa sig 100% í leikinn enda væri markmiðið skýrt, að vinna leikinn og tryggja sér þannig sæti í 16-liða úrslitum.

Heimir sagði Austurríska liðið mjög sterkt og skipulagt með góða leikmenn innanborðs. Það væru samt alltaf leiðir til að skora og eftir góðan varnarleik í seinustu leikjum þá á Heimir ekki von á öðru en öflugri frammistöðu íslenska liðsins gegn Austurríki á miðvikudaginn.

Smelltu hérna til að horfa á fjölmiðlafund íslenska liðsins í heild sinni. Sumar spurningar á fundinum eru á ensku.