• þri. 14. jún. 2016
  • Landslið

Heimir Hallgrímsson: „Aldrei sýnt jafn góða frammistöðu”

Heimir-Hallgrimsson

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, segir jafnteflið í kvöld mikilvægt upp á framhaldið á mótinu og að stuðningsmenn íslenska liðsins eigi sérstakt hrós skilið.


Hvernig fannst þér leikurinn?

Þetta var náttúrulega taugastrekkjandi leikur. Við vissum það svo sem alveg að þeir væru með betri einstaklinga innanborðs og það sást í leiknum. Þeir höfðu boltann miklu meira en við vörðumst vel, við vörðumst sem heild og komum í veg fyrir að þeir sköpuðu sér mikið af opnum færum. Þeir fengu þó eitt eða tvö en Hannes tók nú eitt glæsilega. Ef við horfum yfir allan leikinn þá sköpuðu þeir sér ekki mörg dauðafæri. Það var einmitt það sem við lögðum upp með. 


Hversu mikilvægt var að ná jafntefli?

Fyrsta lagi í upphafi móts að fá stig, vera komnir með eitt stig. Það er alltaf gott, setur svona aðeins meiri ró í næsta leik. Ungverjarnir náttúrulega sýndu frábæran leik í dag og gerðu vel að vera komnir með þrjú stig. Þessi leikur okkar á móti þeim er náttúrulega svolítill lykilleikur fyrir í rauninni bæði liðin, þeir eru kannski í aðeins þægilegri stöðu að vera komnir með þrjú stig. Þá nægir kannski jafntefli í þessum leik. En bara engu að síður báðar þessar þjóðir líta á þennan leik með það fyrir augum að þarna er möguleiki að fá þrjú stig.


Hvað með frammistöðuna í stúkunni?

Ég held bara að allir þeir sem voru hérna á vellinum, hvort sem þeir eru Portúgalar eða Íslendingar eða Frakkar, hafa örugglega verið hissa hversu rosalegur stuðningur þetta var og maður er bara orðlaus og auðmjúkur að hafa fengið að upplifa þetta. Ég held að íslenskir stuðningsmenn hafi aldrei sýnt jafn góða frammistöðu og eins og hérna í kvöld.