• þri. 07. jún. 2016
  • Landslið

A kvenna - Öruggur sigur á Makedóníu

EM kvenna U17
UWE2017_Qualifiers_L_FullColour_on_White

Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan sigur á Makedóníu i kvöld en leikið var í undankeppni EM.  Lokatölur urðu 8 - 0 og komu sex markanna í fyrri hálfleik.  Íslenska liðið er nú í dauðafæri um það að tryggja sér öruggt sæti í úrslitakeppniinni sem haldin verður í Hollandi á næsta ári.

Aldrei var spurning um hvernig þessi leikur mundi fara heldur einungis hversu stór sigur íslenska liðsins yrði.  Hið unga lið Makedóníu átti ekki skot að marki Íslands á meðan marktilraunir heimastúlkna voru 34 talsins.  Fanndís Friðriksdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu.  Harpa Þorsteinsdóttir bætti við öðru tveimur mínútum síðar og þær Elín Metta Jensen og Sara Björk Gunnarsdóttir skoruðu svo sitt markið hvort á 25. og 27. mínútu.  Harpa gerði svo tvo síðustu mörkin í fyrri hálfleiknum á 34. og 42. mínútu.  Þrjú mörk Hörpu í fyrri hálfleik og er hún nú markahæst allra leikmanna í undankeppninni með 10 mörk í 6 leikjum

Mörkin urðu færri í síðari hálfleiknum en Fanndís skoraði á 50. mínútu, sitt annað mark og Dagný Brynjarsdóttir átti lokaorðið á 81. mínútu.  Öruggur sigur í höfn og 4.270 áhorfendur á Laugardalsvelli fögnuðu stelpunum vel.

Skotar lögðu Hvít Rússa fyrr í dag og eru með 18 stig, líkt og Ísland, en íslenska liðið hefur leikið einum leik minna.  Sæti í umspili er því tryggt hjá Íslandi og eitt stig þarf, úr leikjunum tveimur sem Ísland á eftir, til að tryggja sætið í úrslitakeppninni.  Leikirnir eru gegn Slóveníu, 16. september og gegn Skotum, 20. september.  Leikirnir fara báðir fram á Laugardalsvelli.