• fös. 03. jún. 2016
  • Landslið

A kvenna - Mögnuð frammistaða og öruggur sigur í Falkirk

Fagn

Ísland vann frábæran sigur á Skotum í kvöld í undankeppni EM en leikið var í Falkirk.  Lokatölur urðu 0 - 4  eftir að Ísland hafði leitt 0 – 1 í leikhléi.  Sigurinn var ákaflega öruggur, íslenska liðið sterkari aðilinn allan leikinn og sýndi frammstöðu sem hlýtur teljast ein sú besta sem íslenskt kvennalandslið hefur sýnt.

Fyrsta markið kom á 9. mínútu þegar Hallbera Guðný Gísladóttir tók aukaspyrnu utan af kanti.  Boltinn fór í gegnum teiginn, framhjá öllum leikmönnum og í fjærhornið.  Virkilega skemmtileg spyrna þar á ferðinni.  Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn allan hálfleikinn og virtist hápressa íslenska liðsins kom heimastúlkum í opna skjöldu .

Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og íslenska liðið byrjaði þann seinni líka af miklum krafti.  Það var svo ótrúlegur 7 mínútna kafli sem að gerði út um leikinn.  Fyrst skallaði Harpa Þorsteinsdóttir boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Hólmfríði Magnúsdóttur.  Þremur mínútum síðar, á 65. mínútu, var það Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sem skallaði hornspyrnu Hallberu í netið.  Aftur liðu þrjár mínútur og þá var það Margrét Lára Viðarsdóttir serm að skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Hörpu Þorsteinsdóttur.  Þrjú skallamörk á sjö mínútum og úrslitin ráðin.  Heldur róaðist leikurinn en íslenska liðið hefði getað bætt við t.d. átti Fanndís skot í stöngina.  Skotar fengu hinsvegar sitt besta færi í uppbótartíma þegar þær fengu vítaspyrnu en hún hafnaði í stönginni.  Íslenska liðið hefur því ekki ennþá fengið á sig mark í undankeppninni og hafa tyllt sér í toppsæti riðilsins.

Frábær sigur og íslenska liðið getur farið langt með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í Hollandi með því að leggja Makedóníu að velli á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.  Frammistaðan í Skotlandi var hreinlega frábær og gefur góð fyrirheit fyrir leikinn gegn Makedóníu en þann leik þarf að klára.  Það skal takast með góðum stuðningi íslenskra áhorfenda sem eru hvattir til þess að fjölmenna á völlinn á þriðjudaginn.  Miðasala á leikinn er í fullum gangi í gegnum miðasölukerfi midi.is.