• fim. 02. jún. 2016
  • Landslið

A kvenna - Stelpurnar á sögufrægum slóðum

William_Wallace

Það má með sanni segja að íslenski hópurinn sé á sögufrægum slóðum hér í Skotlandi og tengist það mikið helstu sjálfstæðishetju Skota, William Wallace. 

Liðið æfði í gær í Stirling og yfir æfingavellinum gnæfði mikið minnismerki um áðurnefndan William Wallace.  Margir kannast við myndina "Braveheart" þar sem Mel Gibson fór með hlutverk þessa sjálfstæðishetju Skota. 

Það var einmitt árið 1297 að Wallace vann sig fræknasta sigur þegar hann lagði her Englandskonungs í bardaga við Stirling þrátt fyrir að hafa miklu færri menn í sínum röðum.  Þessi bardagi er þungamiðja í myndinni "Braveheart".  Margir muna fleyg orð úr þeirri mynd þegar Wallace er að hvetja sína menn til dáða fyrir bardagann: "And dying in your beds many years from now, would you be willing to trade all the days from this day to that for one chance, just one chance to come back here and tell our enemies that they may take our lives, but they'll never take our freedom!!!"

En ári síðar, 1298,  féll William af stalli þegar hann tapaði bardaga gegn Játvarði I, Englandskonungi sem háður var Falkirk, þar sem liðið dvelur hér í Skotlandi.  Eftir það fór Wallace til Frakklands þar sem hann dvaldi um hríð en snéri aftur til Skotlands 1303.  Englendingar settu fé til höfuðs honum og hann var handtekinn nálægt Glasgow árið 1305.  Hann var þar líflátinn og líkami hans hlutaður í sundur og dreift um England og Skotland.  Skotar fengu svo sjálfstæði frá Englandi árið 1328, eða 23 árum eftir dauða Wallace en hann hefur síðan verið ein helsta hetja Skota.