"Allt eða ekkert"
Skotar eru ekkert að draga undan þegar þeir auglýsa leik Skotlands og Íslands í undankeppni EM kvenna sem fram fer í Falkirk, föstudaginn 3. júní. Þeir auglýsa hann með yfirskriftinni "Allt eða ekkert". Þó svo að örugglega megi rökræða fram og til baka um þá fullyrðingu þá er alveg ljóst að það er mikið undir í þessum leik.
Sú þjóð sem endar í efsta sæti riðilsins tryggir sér sæti í úrslitakeppninni í Hollandi 2017. Þær sex þjóðir sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlanna átta, komast einnig beint til Hollands. Þær tvær þjóðir sem sitja þá eftir, með 7. og 8. bestan árangurinn í öðru sæti, mætast í tveimur umspilsleikjum um eitt sæti í úrslitakeppninni.
Skotland og Ísland eru bæði með fullt hús stiga, Skotar eftir fimm leiki og Ísland eftir fjóra. Báðar þjóðirnar standa því vel að vígi en báðar hafa auga á efsta sæti riðilsins. Sigurliðið á föstudaginn fer í bílstjórasætið en þjóðirnar mætast svo aftur á Laugardalsvelli, 20. september næstkomandi, í lokaleik riðilsins.
Næsti heimaleikur Íslands er hinsvegar næstkomandi þriðjudag, 7. júní, á Laugardalsvelli gegn Makedóníu og hefst kl. 19.30. Miðasala er í fullum gangi í gegnum miðasölukerfi hjá midi.is