U17 kvenna – Stór sigur í lokaleik
U17 lið kvenna vann í morgun 5-2 sigur á Rússum í seinasta leik undirbúningsmóts UEFA sem haldið var í Finnlandi.
Ísland komst yfir strax á 5. mínútu með marki úr víti en það var Alexandra Jóhannsdóttir sem skoraði. Alexandra var aftur á ferð á 9. mínútu þegar hún tvöfaldaði forystu Íslands. Karólína Lea kom Íslandi í 3-0 á 32. mínútu og stuttu áður en blásið var til hálfleiks var Sveindís Jane búin að koma Íslandi í 4-0.
Seinasta mark Íslands kom á 50. mínútu en það var Bergdís Fanney sem skoraði það. Rússar náðu að skora tvívegis undir lok leiksins og niðurstaðan því 5-2 sigur Íslands.
Umfjöllun um leikinn frá Tómasi Þóroddssyni:
Íslenska u-17 ára landsliðið lek í dag sinn síðasta leik á æfingamóti uefa, leikið var gegn Rússum. Byrjunarlið Íslands: Markvörður-Aníta Dögg Guðmundsdóttir Hægri bakvörður- Aþena Þöll Gunnarsdóttir
Miðverðir- Guðný Árnadóttir og Valdís Björg Sigurbjörnsdóttir Vinstri bakvörður- Elín Helga Ingadóttir Aftari miðja - Alexandra Jóhannsdóttir, fyrirliði Fremri miðja- Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Stefanía Ragnarsdóttir Hægri kantur- Hlín Eiríksdóttir Vinstri kantur- Bergdís Fanney Einarsdóttir Framherji - Sveindís Jane Jónsdóttir
Leikurinn byrjaði fjörlega og eftir góða sókn á 4. mínútu var brotið á Sveindísi inn í teig og að sjálfsögðu dæmt víti. Alexandra skoraði af miklu öryggi úr vítinu og staðan 1-0. Stórsókn Íslands hélt áfram og à 9. mín skoraði Alexandra beint úr horni. Yfirburðir Íslands heldu áfram og eftir frábæra sókn á 12. mín stakk Karó á Fanney, en markmaður Rússa varði vel. Þær Karó og Fanney endurtóku leikinn á 13. mínútu og þá sendi Fanney fyrir Sveindísi en markmaður Rússa varði aftur í horn, úr horninu fékk Karó úrvalsfæri en var óheppinn. Á 18. mínútu tók Sveindís langt innkast á Karó sem tók boltann á lofti og setti hann rétt framhjá.
Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta, en íslenska liðið hafði þó undirtökin. Á 31. mín tók Alexandra gott horn sem Karó skallaði inn, hennar fyrsta landsliðsmark og staðan orðin 3-0. Mínútu seinna átti Stefanía gott skot sem var vel varið í horn. Á 36. mín tók Alexandra mjög góða aukaspyrnu sem var varin í horn. Úr horninu sem Alexandra tók skoraði Sveindís sitt fyrsta landsliðsmark og staðan orðin 4-0 Á 39. mín átti Elín góðan sprett upp og skot rétt framhjá.
Staðan var því 4-0 í hálfleik og stelpunar búnar að spila frábærlega. Katrín Hanna Hauksdóttir kom inn fyrir Anítu.
Á 49. mín átti Hlín flottan sprett og góðan kross fyrir, markmaður Rússa varði vel frá Karó, en Fanney fylgdi vel á eftir og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark. Staðan orðin 5-0. Á 54. mín komu þær Þórdís Elva Ágústsdóttir og María Björg Fjölnisdóttir inn fyrir Guðnýju og Karó. Á 62. mín komu þær Hulda Björg Hannesdóttir og Laufey Halldórsdottir inn fyrir Fanneyju og Stefaníu. Rússar áttu tvö ágætis færi og gerðu sig líklega um miðbik hálfleiksins. Á 71. mín kom Sólveig Larsen Jóhannesdóttir inn fyrir Sveindísi. Á 76. stakk Hlín sér innfyrir tvo varnarmenn, reyndi að fara framhjá markmanni, en hann var klókur og handsamaði boltann.
Á 80. mín fengu Rússar víti sem þeir skoruðu úr, en Katrín var nálægt því að verja. Tveimur mínútum seinna skoruðu Rússar annað mark og staðan 5-2 fyrir Ísland. Í kjölfarið flautaði góður dómari leiksins leikinn af og frábær sigur Íslands staðreynd.