• mán. 09. maí 2016
  • Landslið

U17 kvenna – Svekkjandi tap gegn Finnum - Seinasti leikurinn er á þriðjudag

U17 kvenna

Íslenska U17 ára kvennalandsliðið spilaði sinna annan leik á UEFA æfingamótinu í dag. Leikið var gegn heimaliði Finna og tapaðist leikurinn 4-2. Óhætt er að segja að Íslensku stelpurnar hafi átt meira skilið úr leiknum, þær sköpuðu sér fleiri færi og gáfu allt í leikinn.

Fyrsta færi leiksins fékk Sveindís eftir 30 sek er hún stal bolta en markmaður Finna bjargaði vel. Á 4. mín komst Sveindís í gegn en markmaður Finna varði aftur. Á 7. mín skaut Hlín rétt yfir eftir langt innkast frá Sveindísi. Fyrsta færi Finna kom á 11. mín en Katrín varði vel í tvígang.

Hlín kom Íslandi yfir með flottu marki á 21. mín eftir góðan undirbúning frá Sólveigu og Sveindísi. Í kjölfarið átti Hlín góða þrjá krossa úr þrem sóknum sem markmaður bjargaði vel. Finnar jöfnuðu svo gegn gangi leiksins og skoruðu úr næstu sókn annað mark eftir slaka ákvörðun hjá dómara. Á 39. mín stal Sveindís boltanum fann Hlín sem gaf fyrir en enn og aftur greip Finnski markmaðurinn vel inn í.

Tvær skiptingar voru gerðar í hálfleik, Alexandra Jóhannsdóttir og Laufey Halldórsdóttir komu inn fyrir Þórdísi og Fríðu. Fyrsta færi seinnihálfleiks átti Hlín, en markvörður Finna varði. Mínútu seinna átti Hlín sendingu á Sólveigu, en skot hennar var varið. Í næstu sókn átti Hlín góðan kross fyrir, Stefanía skallaði en varið. Mínútu seinna komst Sólveig ein í gegn en skot hennar fór framhjá. Finnar skoruðu svo í fyrstu sókn sinni í seinni hálfleik og staðan orðin 3-1. 

Á 50. mín skoraði Hlín annað mark sitt af miklu harðfylgi. Á 53. mín kom Karólína Vilhjálmsdóttir inn fyrir Sólveigu. Á 60. mín skallaði Hlín aukaspyrnu Alexöndru rétt yfir. Finnar komust i góða sókn tveim mín seinna, en Katrín varði vel. Mínútu seinna stakk Sveindís sér á milli tveggja varnarmanna en var óheppin með skot sitt. Á 67. mín komust Finnar inn í sendingu og skoruðu. Staðan orðin 4-2. Á 69. mín kom Hulda Hannesdóttir inn fyrir Bergdísi Fanney.

Frábær sókn á 70. mín er Karó gaf á Sveindísi, en á henni var klárlega brotið en dómarinn gleymdi að flauta. Á 76. mín komu þær Aþena Þöll Gunnarsdóttir og Valdís Björg Sigurbjörnsdóttir fyrir Hlín og Guðný.

Næsti leikur liðsins er gegn Rússum á þriðjudag og er þar leikið um 3. sætið. Hægt verður að fylgjast með honum á Facebook-síðu KSÍ.