• sun. 27. mar. 2016
  • Landslið

U17 kvenna:  Fimm marka tap gegn Englandi

UEFA EM U17 kvenna
WU17_Landscape_Master_White_cmyk-01

U17 landslið kvenna beið lægri hlut gegn Englendingum í 2 umferð EM-milliriðils, en liðin mættust í Serbíu í dag, sunnudag.  Enska liðið var mun sterkari aðilinn og vann fimm marka sigur.  Íslensku súlkurnar náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri á Belgum í fyrstu umferð.

Englendingar voru mun sterkari í leiknum, sér í lagi í fyrri hálfleik,og leiddu ensku stúlkurnar með fjórum mörkum þegar blásið var til hálfleiks.  Íslenska liðið lék mun betur í seinni hálfleik, en þær ensku bættu þó við einu marki og unnu 5-0 sigur.  England er með fullt hús stiga eftir tvo leiki og er enska liðið öruggt með sæti í úrslitakeppninni eftir sigra gegn Íslandi og Serbíu.

Í hinum leik dagsins unnu heimastúlkur Belga með tveimur mörkum gegn engu, en í lokaumferðinni, sem fram fer á þriðjudag, mætast Ísland og Serbía í úrslitleik um 2. sæti riðilsins.  Milliriðlarnir eru 6 talsins og fara sigurvegarar hvers riðils í úrslitakeppnina, sem haldin verður í Hvíta-Rússlandi, ásamt liðinu með bestan árangur í 2. sæti milliriðlanna sex, auk heimamanna, Hvít-Rússa, sem verða áttunda liðið í úrslitakeppninni. 

Umfjöllun um leikinn frá Tómasi Þóroddssyni fararstjóra:

Íslenska u-17 ára kvennalandsliðið spilaði annan leik sinn í milliriðli Evrópumótsins í dag. Leikið var gegn Englandi, en þær höfðu unnið Serba í fyrsta leik á meðan okkar stelpur unnu Belga. Í upphitun varð Alexandra Jóhannsdóttir fyrir því óláni að meiða sig á ökkla og gat því ekki leikið með.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Telma Ívarsdóttir markmaður, Mist Grönvold, Þormóðsdóttir, Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir, Guðný Árnadóttir, Aníta Lind Daníelsdóttir, Kristín Dís Árnadóttir fyrirliði, Harpa Karen Antonsdóttir, Ásdís Halldórsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Agla María Albertsdóttir og Sólveig Jóhannesdóttir Larsen.

Ensku stelpunar byrjuðu betur og uppskáru mark á 18. mín er leikmaður þeirra fylgdi vel á eftir hornspyrnu og skoraði. Fyrsta færi Íslands kom á 22. mín en þá varði markmaður Englendinga skot frá Hörpu. Englendingar komust í 0-2 á 31. mín eftir snarpa sókn þar sem þær unnu boltann á miðjunni. Þremur mínútum seinna bættu Englendingar 3. markinu við. Á 38. átti Aníta Lind flottan sprett upp, en skot hennar fór yfir. Fjórða mark Englendinga kom á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var því 0-4.

Seinni hálfleikur byrjaði í mun meira jafnvægi. Á 58. min skoruðu Englendingar 5. mark sitt. Stuttu seinna varði Telma vel. Á 60. mín kom Dröfn Einarsdóttir inn fyrir Anítu Lind. Mínútu síðar átti Agla María fínt skot rétt framhjá. Á 65. mín kom Ísold Rúnarsdóttir inn fyrir Hörpu Antons. Þremur mínútum síðar kom Guðrún Gyða Haralz inn fyrir Öglu Maríu. Telma varði svo vel á 71. mín.

Sanngjarn sigur Englendinga því staðreynd. Íslenska liðið komst aldrei inn í leikinn og voru á eftir i öllum aðgerðum, en þess má þó geta að Englendingar skoruðu 28 mörk í 3 leikjum í forkeppninni og hafa á að skipa mjög góðu liði.

Næsti leikur stelpnana er gegn Serbum á þriðjudaginn kl 12.00 að íslenskum tíma og enn er tölfræðilegur möguleiki á að komast í lokakeppnina.