• fös. 25. mar. 2016
  • Landslið

Sigur U17 kvenna á Belgum

UEFA EM U17 kvenna
WU17_Portrait_Master_White_cmyk-01_2010

Umfjöllun um leik Íslands, fréttaritarinn er Tómas Þóroddsson:

Íslenska u-17 ára kvennalandsliðið spilaði sinn fyrsta leik í milliriðli Evrópumótsins í dag. Leikið var gegn Belgum. Eftir hryðjuverkin þar á dögunum var í byrjun leiks mínútu þögn og liðin spiluðu með sorgarbönd.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Telma Ívarsdóttir markmaður, Dröfn Einarsdóttir, Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir, Guðný Árnadóttir, Aníta Lind Daníelsdóttir, Kristín Dís Árnadóttir fyrirliði, Alexandra Jóhannsdóttir, Ásdís Halldórsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Agla María Albertsdóttir og Sólveig Jóhannesdóttir Larsen

Íslenska liðið byrjaði af krafti og átti Agla María frábæra sendingu yfir á Hlín sem setti hann í fyrsta í fjær hornið og kom Íslandi i 0-1 eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Á 20. mínútu áttu Íslendingar stórsókn, fyrst var Agla María nálægt því að sleppa ein í gegn en varnarmaður bjargaði í horn, upp úr horninu á átti Guðný sendingu inn í teiginn aftur og Kristín Dís smellti boltanum á markið en Belgar björguðu á línu.

Belgar fengu horn á síðustu mínútu og náðu góðum skalla að marki Íslands, en Telma varði vel.

Íslenska liðið var mun betra í fyrri hálfleik og voru nokkrar mjög góðar sóknir, eins var varnarleikurinn leikinn af miklu öryggi.

Seinni hálfleikur byrjaði líka af krafti og fengu liðin færi til skiptis. Íslenska liðið átti tvö dauðafæri og var óheppið að auka ekki forystuna í tvö mörk. Á 60. mínútu stálu Belgar boltanum á miðjunni, keyrðu hratt upp og skoruðu með flottu skoti. Eva María Jónsdóttir kom svo inn fyrir Hlín mínútu síðar. Á 66. mín kom Guðrún Gyða Haraldz inn fyrir Sólveigu Larsen.

Á 73. mín átti Eva María frábæra sendingu inn á Guðrúnu, hún stakk varnarmann af, sólaði á markmanninn og skoraði í autt markið og kom Íslandi í 1-2.

Á 75. mín kom Ísold inn fyrir Alexöndru. Íslensku stelpunar sigldu svo sigrinum í höfn á skynsaman hátt.

Næsti leikur Íslands er gegn Englendingum, en ensku stelpunar unnu Serbíu 3-1 í dag.