• fim. 24. mar. 2016
  • Landslið

A karla - Tap gegn Dönum í Herning

Danmork-2-1-island-Vinattuleikur-24-mars-2016---0306

A-landslið karla tapaði í kvöld 2-1 gegn Dönum í vináttulandsleik en leikið var í Herning. Leikurinn var hin ágætasta skemmtun fyrir áhorfendur en bæði lið fengu mörg færi til að skora. Danirnir nýttu sín færi betur og unnu að lokum verðskuldaðan sigur.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Danir pressuðu stíft á íslenska liðið. Ísland spilaði aftarlega á vellinum en komst í góðar skyndisóknir og átti góð skot á markið á blautum vellinum. Þrátt fyrir ágæt færi í fyrri hálfleik þá náði hvorugt liðið að skora.

Danska liðið mætti af krafti í seinni hálfleikinn og skoraði fyrsta mark leiksins á 51. mínútu. Nicolai Jørgensen skoraði markið eftir laglegan undirbúning Yussuf Yurary Poulsen. Það leið ekki á löngu þar til danska liðið hafði tvöfaldað forskotið en það var aftur Nicolai Jørgensen sem var á skotskónum en hann fékk laglenga sendingu frá Christian Eriksen og skoraði. Stuttu áður hafði Alfreð Finnbogason komist í gott færi en honum brást bogalistin og Danir geystust í sókn sem endaði með marki.

Það var svo undir lok leiksins að Ísland komst á blað en Arnór Ingvi Traustason skoraði undir lokin með laglegu skoti úr vítateig. Lokatölur í leiknum 2-1.

Ísland leikur aftur á þriðjudaginn gegn Grikklandi og hefst leikurinn klukkan 17:30.

Myndir úr leiknum.