Umfangsmesta endurskoðun knattspyrnulaganna í 130 ára sögu IFAB
Á 130. ársfundi Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda (IFAB), sem haldinn var í Wales 5. mars sl., samþykkti nefndin að heimila tilraunir með "vídeó-aðstoðardómara". Á fundinum var einnig gefið grænt ljós á umfangsmestu endurskoðun sem gerð hefur verið á knattspyrnulögunum í allri 130 ára sögu IFAB.
Fyrsta málið á dagskrá fundarins var yfirgripsmikil endurskoðun á knattspyrnulögunum, sem er afrakstur 18 mánaða vinnu tækninefndar IFAB undir stjórn David Elleray, fyrrverandi úrvalsdeildardómara í Englandi og núverandi dómaranefndarmanns hjá UEFA. Nefndin, sem samsett er af 8 fulltrúum, þ.e. fjórum frá FIFA og fjórum frá bresku þjóðunum (Englandi, Skotlandi, Wales og N-Írlandi), samþykkti breytingarnar samhljóða (en 6 atkvæði af 8 þarf til að tillögur til breytinga nái fram að ganga). Telur nefndin hér vera um að ræða einstakt tækifæri til þess að lagfæra ýmsar misvísanir og ósamræmi sem nú er að finna í texta laganna.
Aðal áherslan var lögð á að bæta uppbyggingu og orðfæri laganna þar sem hver lagagrein og fyrirmæli um túlkun hennar er nú sett upp hlið við hlið, auk þess sem tekist hefur að stytta sjálfan texta laganna um sem nemur 50% frá þeim orðafjölda sem er að finna í núverandi útgáfu þeirra og jafnframt að gera textann allan "ókynbundinn". Sumar hinna 94 breytinga sem nú verða gerðar á lögunum eru þó fyrst og fremst settar fram með "heilbrigða skynsemi" í huga og til þess að aðlaga lögin að kröfum nútímaknattspyrnu. Sem dæmi má nefna að framvegis verður heimilt að sparka boltanum í hvaða átt sem er úr upphafsspyrnu, en ekki einungis fram-á-við eins og nú er (8. grein), auk þess sem leikmaður sem verður fyrir meiðslum við atlögu andstæðings sem fær gult eða rautt spjald fyrir brot sitt, mun nú geta fengið stutta aðhlynningu innan vallarins án þess að þurfa að yfirgefa leikvöllinn að henni lokinni, sem hingað til hefur gefið liði hins brotlega óréttmætan hagnað í formi fleiri leikmanna inni á vellinum (5. grein).
Hvað varðar "vídeó-aðstoð" fyrir dómara leiksins, þá hefur IFAB samþykkt í grundvallaratriðum hvaða samskiptareglur skulu gilda í þeim tilraunum sem framundan eru og jafnframt ákveðið að hver tilraun skuli standa yfir í að lágmarki tvö ár til þess að tryggja að takast megi að svara sem flestum spurningum um hagræðið, óhagræðið og "verstu tilfellin" (worst case scenarios) sem "vídeó-dómgæslu" kunna að fylgja. Tilraunirnar munu hefjast í síðasta lagi við upphaf keppnistímabilsins 2017/18.
Menn gera ekki ráð fyrir að með þessu megi ná 100% nákvæmni við ákvarðanatöku í hverju einstöku tilfelli, heldur miklu frekar að takast muni að koma í veg fyrir augljóslega rangar ákvarðanir í "lykil-atriðum-leiks" (game changing situations), svo sem við markaskorun, vítaspyrnuákvarðanir, bein rauð spjöld og þegar dómarar ruglast á leikmönnum.
IFAB samþykkti þannig einungis eina tegund tilraunar sem felur í sér að "vídeó-aðstoðardómari", sem hefur aðgang að endursýningum á meðan á leiknum stendur, mun annað hvort skoða tiltekin atvik að beiðni dómarans sjálfs, eða grípa inn í leikinn með fyrirbyggjandi hætti þegar honum sýnist dómarinn vera að gera mistök (sjá nánar hér http://quality.fifa.com/en/VAR/).
Markmiðið með tilraununum verður ekki einungis að skoða áhrifin á dómgæsluna í viðkomandi leikjum, heldur einnig áhrifin á sjálfa íþróttina, þar með talin áhrifin á tilfinningar allra hagsmunaaðila leiksins (leikmanna, þjálfara, dómara, áhorfenda, eigenda, fjölmiðla o.s.frv.).
Annað mikilvægt atriði sem var á dagskrá fundarins var hin svokallaða "þrefalda refsing", þ.e. brottvísun, vítaspyrna og leikbann, á leikmenn sem gerast sekir um að hafa af mótherjum upplögð marktækifæri með brotum sem þeir fremja innan vítateigs. Eftir miklar rökræður samþykkti nefndin samhljóða tillögu UEFA um nýtt orðalag á 12. grein laganna (sjá fsk. 1 hér á eftir) til þess að taka á þessu vandamáli, en jafnframt að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar að loknu tveggja ára tilraunatímabili um heim allan.
Að síðustu ákvað IFAB einnig að heimila tilraunir með "fjórða varamanninn" er mætti koma inn á í framlengingum leikja í tilteknum mótum, en nánari reglur um fyrirkomulag þessara tilrauna liggja enn ekki fyrir.
Þær breytingar á lögunum sem gerðar voru á þessum fundi IFAB taka gildi um heim allan frá og með 1. júní 2016.
Aukaupplýsingar
Að hafa upplagt marktækifæri af liði mótherjanna (12. grein).
Þegar leikmaður gerist sekur um leikbrot innan eigin vítateigs of hefur þannig mark eða upplagt marktækifæri af liði mótherjanna og dómarinn dæmir vítaspyrnu, ber að áminna hinn brotlega nema:
-
Leikmanni sé haldið, í hann togað eða honum hrint
eða
-
Hinn brotlegi reyni ekki að leika boltanum eða þegar hann á enga möguleika til þess að geta leikið boltanum í atlögu sinni
eða
-
Leikbrotið myndi teljast refsingarvert með rauðu spjaldi hvar sem er á vellinum (t.d. alvarlega grófur leikur, ofsaleg framkoma o.s.frv.).
Í öllum ofangreinum tilfellum ber að vísa hinum brotlega af leikvelli.