A kvenna – Ísland vann bronsverðlaun á Algarve-mótinu
Stelpurnar okkar unnu Nýja Sjáland í leik um bronsið á Algarve-mótinu sem fram fer í Portúgal. Leikurinn fór alla leið í vítakeppni þar sem Guðbjörg markmaður varði spyrnu í bráðabana og Sandra María skoraði úr næstu spyrnu sem tryggði Íslandi sigur.
Leikurinn byrjaði með pressu frá Nýja Sjálandi. Það var samt Ísland sem komst yfir þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir skoraði á 27. mínútu. Elín Metta Jensen átti fallega sendingu fyrir markið og Andrea skaut föstu skoti að marki sem var óverjandi. .
Nýja Sjáland náði samt að jafna metin á 70. mínútu þegar Amber Hearn átti gott skot sem fór í stöngina og í markið. Hvorugt lið náði að skora það sem eftir lifði leiks og því var farið beint í vítakeppni en ekki er framlengt á Algarve-mótinu.
Vítakeppnin var æsispennandi en það var komið í bráðabana þegar Guðbjörg Gunnarsdóttir varði spyrnu frá Nýja Sjálandi. Sandra María Jessen skoraði svo úr næstu spyrnu og tryggði Íslandi sigur í leiknum og þar með bronsið.
Kanada vann 2-1sigur á Brasilíu í úrslitaleiknum og vann því mótið. Ísland tapaði einungis einum leik á mótinu sem var gegn Kanada.
Ísland vann bronsið seinast árið 2014 á Algarve-mótinu.