• mán. 07. mar. 2016
  • Landslið

A kvenna - Ísland mætir Kanada á Algarve í kvöld

Ísland Algarve 2016

Ísland mætir Kanada í lokaleik liðsins í riðakeppni Alagarve mótsins en leikurinn hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma.  Íslenska liðinu dugar jafntefli til að tryggja sér efsta sæti riðilsins og um leið, sæti í úrslitaleiknum.  Þetta verður í fyrsta skiptið sem þessar þjóðir mætast hjá A landsliði kvenna.

Kanada tapaði 0 -1 gegn Danmörku í fyrsta leik og lögðu svo Belga með sömu markatölu á föstudaginn.  Ísland lagði Belgíu, 2 - 1 og unnu svo Danmörku, 4 - 1 og eru með sex stig á toppi riðilsins.  Ef að tvær þjóðir verða jafnar með sex stig gildir innbyrðis viðureign svo ef Kanada vinnur Ísland og Danir vinna ekki Belgíu, verður Kanada í efsta sæti.  Ef Kanada leggur Ísland og Danir leggja Belga, verða Ísland, Kanada og Danmörk öll með sex stig og þá sker markatala úr öllum leikjum riðilsins um hvaða þjóð verður í efsta sætinu.  Allar þessar vangaveltur verða hinsvegar óþarfar ef að Ísland gerir jafntefli eða vinnur í kvöld.

Þegar Ísland og Kanada hefja leik verður ljóst hvaða þjóð stendur uppi sem sigurvegari í hinum riðlinum en Brasilía og Rússland mætast í lokaumferðinni.  Brasilíu dugar jafntefli til að tryggja sér efsta sætið en Rússar klífa á toppinn með sigri.

Leikið verður svo um sæti, miðvikudaginn 9. mars.