• mán. 07. mar. 2016
  • Landslið

A kvenna – Ísland leikur um bronsið á Algarve-mótinu

Ísland Algarve 2016

Það var leikið við ansi íslenskar sumaraðstæður í Portúgal þegar Ísland lék við Kanada í seinasta leik riðilsins á Algarve-mótinu. Heldur hvasst og nokkuð kalt. Það var Kanada sem byrjaði leikinn betur og hélt boltanum vel innan liðsins. Sandra Sigurðardóttir átti góðan leik í markinu en hún varði tvívegis vel frá sóknarmönnum kanadíska liðsins.

Það var samt Kanada sem komst yfir í leiknum en Janine Beckie skoraði á 42. mínútu eftir vel útfærða sókn. Kanada leiddi 1-0 þegar blásið var til hálfleiks.

Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik en Kanada átti hættulegri færi. Sandra náði oftar en ekki að grípa vel inní en það vantaði upp á að fá færi við mark Kanada. Svo fór að Ísland náði ekki að jafna metin og Kanada vann 1-0 sigur í leiknum.

Belgía vann 2-1 sigur á Danmörku á sama tíma og var því lokastaða riðilsins þannig að Kanada vinnur riðilinn, í 2. sæti er Ísland, þá Belgía og Danir enda í 4. sæti.

Ísland leikur því við Nýja Sjáland um bronsið en Kanada mætir Brasilíu í úrslitaleiknum. 

Leikirnir fara fram á miðvikudaginn.