Umsækjendur sem fengu synjun fá annað tækifæri
Hluti þeirra umsækjenda um miða á leiki í úrslitakeppni EM karlalandsliða 2016, sem fengu synjun á umsókn sinni vegna þess að kreditkortagreiðsla gekk ekki fá eða hafa þegar fengið annað tækifæri til þess að ganga frá miðakaupum á leiki mótsins samkvæmt upplýsingum frá UEFA. Einungis þeir umsækjendur sem þegar eru skráðir notendur á miðasöluvef UEFA (og fengu synjun á umsókn) koma til greina, ekki er tekið við nýskráningum. UEFA mun hafa beint samband við viðkomandi einstaklinga og skýra næstu skref.
Umsækjandinn getur þá valið miða og tekið frá í 15 mínútur á meðan gengið er frá greiðslu. Sem fyrr er eingöngu hægt að greiða með kreditkorti, en hægt er að nota annað kreditkort en það sem skráð var á upprunalegu umsókninni (Mastercard eða VISA), en gildistíminn þarf þó að vera til a.m.k. 31. ágúst.
Miðar á staka leiki eru í boði og er hægt að kaupa miða á allt að 7 leiki (mest 4 miða á hvern leik), þar sem ekki er boðið upp á miðaseríu (Follow my team). Í þessu ferli er ekki hægt að kaupa miða fyrir fatlaða einstaklinga (Accessibility tickets) hafi slíkum miðaumsóknum verið synjað, en boðið verður upp á þá síðar. Rétt er að geta þess að hluti miðanna er í sætum með skertu útsýni (Restricted view).