Tindastóll fær Grasrótarverðlaun KSÍ
Grasrótarverðlaun KSÍ árið 2016 hlýtur Ungmennafélagið Tindastóll. Tindastóll hefur um áraraðir haldið úti knattspyrnumóti fyrir bæði stráka og stelpur með miklum sóma, Landsbankamót Tindastóls fyrir stúlkur í 6. og 7. flokki og Króksmót Tindastóls fyrir drengi í 5., 6. og 7. flokki.
KSÍ getur seint þakkað þeim félögum sem halda úti knattspyrnumótum fyrir yngstu iðkendur knattspyrnuhreyfingarinnar nægilega fyrir þeirra ötula starf.
Tindastóll er eitt af frumkvöðlafélögum í þeim efnum og sumarið 2016 verður 30. sumarið í röð sem Tindastóll heldur úti móti. Það er því ekki nokkur spurning að Tindastóll er vel að Grasrótarverðlaunum KSÍ komið.