Loksins er Ísland á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu. Það var stór stund þegar dómarinn flautaði til leiksloka á Laugardalsvelli 6. september síðastliðinn. Markalaust jafntefli Íslands og Kasakstan var staðreynd og íslenska landsliðið hafði tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM 2016 í Frakklandi. Liðið var þá nýkomið heim frá Amsterdam þar sem það vann einn sinn stærsta sigur, 1-0, á HM bronsliði Hollands. Þetta var stór áfangi fyrir íslenska knattspyrnu og athygli knattspyrnuheimsins beindist enn frekar að Íslandi. Eftir lokaleikina í október hafnaði lið Íslands síðan í 2. sæti í sínum riðli eftir 6 sigurleiki, 2 jafntefli og 2 ósigra; með markatöluna 17-6. Glæsilegur árangur liðsins undir stjórn Lars og Heimis. Framundan er því þátttaka í úrslitakeppni í júní og þar verða mótherjar okkar Portúgal, Ungverjaland og Austurríki. Ljóst er að mikill fjöldi Íslendinga mun fylgja liðinu til Frakklands. Síðastliðið sumar var svo dregið í riðla í undankeppni HM 2018. Mótherjar Íslands verða Króatía, Úkraína, Tyrkland og Finnland. Efsta liðið í riðlinum kemst til Rússlands þar sem úrslitakeppnin fer fram, auk þess sem þau 8 lið sem bestum árangri ná í öðru sæti í riðlunum 9 leika í umspili um 4 sæti í HM. Það verður því lítið hlé hjá liðinu eftir EM en fyrsti leikur í undankeppni HM fer fram í Úkraínu 5. september næstkomandi.
A landslið kvenna byrjaði vel í undankeppni EM 2017, en úrslitakeppnin fer fram í Hollandi og í fyrsta sinn verða þátttökuþjóðirnar 16 talsins í stað 12 áður. Ísland lék 3 leiki og vann öruggan sigur í þeim öllum. Skotland verður augljóslega aðal keppinautur okkar liðs en skoska liðið hefur unnið 4 fyrstu leiki sína. Lið Íslands og Skotlands munu mætast tvisvar á árinu 2016 og munu þeir leikir væntanlega ráða úrslitum í riðlinum. Efsta lið hvers riðils kemst í úrslitakeppnina auk þeirra 6 liða sem bestum árangri ná í öðru sæti í riðlunum átta. Þau 2 lið sem þá standa eftir og hafna í öðru sæti í sínum riðlum leika í umspili um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Framundan eru því mikilvægir leikir hjá íslenska liðinu, sem ætlar sér til Hollands.
Byrjun strákanna í U21 landsliði karla í undankeppni EM 2017 lofar góðu. Liðið er sem stendur í efsta sæti síns riðils með 11 stig eftir 5 umferðir og er eina taplausa liðið. Frækinn sigur á landsliði Frakklands á Kópavogsvelli í byrjun september á sl. ári sýndi vel hvað býr í liðinu og strákarnir eru til alls vísir. Framundan eru þrír leikir á útivelli og síðan lýkur keppninni með tveimur heimaleikjum í október 2016. Úrslitakeppnin fer fram í Póllandi 2017 og þar munu 12 lið taka þátt, en í síðustu keppnum hafa liðin verið 8. Sigurvegarar í riðlunum 9 komast beint í úrslit auk þess sem þau 4 lið sem bestum árangri ná í 2. sæti riðlanna leika í umspili um tvö sæti.
KSÍ hélt úrslitakeppni Evrópumóts U17 landsliða kvenna 2015 í Reykjavík, Kópavogi, Grindavík og á Akranesi. Auk Íslands tóku landslið frá Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Sviss, Írlandi og Noregi þátt í keppninni. Leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum. Keppnin var mikil reynsla fyrir íslensku stúlkurnar en liðið beið lægri hlut í öllum sínum leikjum. Til úrslita léku Spánn og Sviss. Spánn var með yfirburðalið og vann öruggan sigur. Keppnin tókst í alla staði vel og lögðu mörg aðildarfélög KSÍ sitt af mörkum. Þau eiga þakkir skildar sem og mikill fjöldi sjálfboðaliða sem vann við mótið. Alls mættu rúmlega 6.000 áhorfendur á leikina 15. U17 landslið kvenna og U17 landslið karla komust árinu áfram úr undankeppni EM 2015/16 og leika í milliriðlum í vor.
Árangur landsliða Íslands á síðustu árum hefur vakið mikla athygli. Þegar svo A landslið karla komst í úrslitakeppni EM og varð lið númer þrjú í röðinni til þess að vinna sér inn þann rétt, fjölgaði mjög fyrirspurnum og óskum um viðtöl til KSÍ. Fjölmiðlar, forystumenn annarra knattspyrnusambanda og áhugafólk leituðu skýringa og svara. Reynt hefur verið að sinna þessum erindum af kostgæfni og hróður íslenskrar knattspyrnu hefur víða farið. En þátttaka á stórmóti hefur einnig leitt til aukins álags á ýmsum öðrum sviðum og ljóst er að verkefnið er umfangsmikið fyrir lítið knattspyrnusamband. Það verður hins vegar allt gert til þess að þátttaka Íslands verði vel skipulögð og undirbúningur liðsins eins og best verður á kosið.
Eins og oft hefur verið sagt er vel skipulagt mótahald hornsteinninn í starfsemi KSÍ og þar varð engin breyting á. Alls skipulagði KSÍ 5.300 leiki um allt land í samstarfi við aðildarfélögin. Slæmt ástand valla á Austurlandi setti svip sinn á upphaf Íslandsmótsins sem annars fór hefðbundið fram. Keppnin var jöfn og skemmtileg. FH varð Íslandsmeistari í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla eins og Breiðablik í Pepsi-deild kvenna. Valur varð bikarmeistari í meistaraflokki karla og Stjarnan í meistaraflokki kvenna. Verðskuldaða athygli vakti árangur Austfjarðaliða í deildarkeppninni, en Huginn og Leiknir F. unnu sér rétt til að leika í fyrsta sinn í 1. deild karla 2016. Aðsókn á leiki Pepsi-deildar karla var sú besta frá 2011 en að meðaltali mættu 1.107 áhorfendur á leik. Í Pepsi-deild kvenna var aðsóknin að meðaltali 190 áhorfendur á leik. Mikilvægur þáttur í starfi KSÍ er að standa vel að málefnum knattspyrnudómara þannig að þeir komi vel undirbúnir til leiks. Á árinu hófst nýtt átaksverkefni fyrir unga dómara og voru þátttakendur valdir úr hópi dómara á aldrinum 17-25 ára. Markmiðið er að reyna að auka gæði dómgæslunnar á komandi árum.
Starfsemi KSÍ er fjölþætt á ýmsum sviðum og sífellt er sótt fram. Fræðslustarfið var öflugt á árinu, sérstaklega fyrir þjálfara og dómara, og voru fjölmörg námskeið haldin auk þátttöku í námskeiðum erlendis. Þjálfaraskóli KSÍ þar sem reyndari þjálfarar leiðbeina þjálfurum á vettvangi skipar æ veigameiri sess. Hæfileikamótun KSÍ er mikilvæg til að ná enn betur til yngri leikmanna og tóku fjölmargir krakkar þátt víðs vegar um landið. Mikil starfsemi KSÍ er í samræmi við ársreikning sambandsins. Rekstrarhagnaður var af hefðbundinni starfsemi upp á rúmar 156 m.kr. Með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga (um 28 m.kr. í mannvirki og um 147 m.kr. í aðra styrki) og fjármagnsliðum varð niðurstaðan hagnaður upp á 10,5 m.kr. Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót. Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir gott knattspyrnustarf á starfsárinu. Það er fyrir þeirra mikla starf og skipulag sem íslensk knattspyrna uppsker svo ríkulega sem raun ber vitni. Samstarf við forystumenn félaganna var mikið og gott og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf.
Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og að síðustu en ekki síst öllum þeim fjölda iðkenda sem leika knattspyrnu sér til skemmtunar.