• sun. 31. jan. 2016
  • Landslið

Bandarískur sigur á StubHub Center - Viðtöl

Aron-Sigurdarson

Bandaríkin unnu 3-2 sigur á Íslandi í vináttulandsleik sem fram fór á StubHub Center vellinum í Carlson í kvöld, sunnudag. Fimm íslenskir leikmenn léku sinn fyrsta A-landsleik í leiknum. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og það var strax á 12. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom. Kristinn Steindórsson átti þá skot að marki Bandaríkjanna sem hafði viðkomu í varnarmanni og þaðan fór boltinn í markið. Eftir markið pressuðu leikmenn Bandaríkjanna vel á íslenska liðið og á 20. mínútu jafnaði Jozy Altidore metin er hann náði að leika sig í gegnum vörn íslenska liðsins. 

Heimamenn pressuðu það sem eftir lifði hálfleiksins en Aron Sigurðarson átti besta færið Íslands en skot hans fór naumlega yfir markið. 

Hjörtur Hermannsson, Aron Elís Þrándarson og Diego Jóhannsson komu allir inn í hálfleik hjá íslenska liðinu. 

Aron Sigurðarson kom Íslandi yfir á 48. mínútu leiksins með laglegu mark.i Hann skaut boltanum með fallegum sveig framhjá markmanni heimamanna. Bandaríkjamenn jöfnuðu svo metin á 59. mínútu, en það var Michael Orozco sem skallaði knöttinn í markið af stuttu færi. 

Það stefndi flest í jafntefli í leiknum en Steven Birnbaum náði þá að skora sigurmark leiksins á 90. mínútu. Það kom sending fyrir markið eftir aukaspyrnu og Birnbaum reis manna hæst og skallaði knöttinn í netið. 

Niðurstaðan 3-2 sigur Bandaríkjanna í markaleik. Margir íslenskir leikmenn fengu sínar fyrstu mínútur með landsliðinu en fimm leikmenn léku sinn fyrsta A-landsleik í kvöld.

Smelltu hérna til að horfa á viðtal við Ara Frey Skúlason.

Smelltu hérna til að horfa á viðtal við Lars Lagerbäck

Smelltu hérna til að horfa á viðtal við Aron Sigurðarson.