Ísland stendur í stað á FIFA-listanum
Karlalandsliðið er áfram í 36. sætinu á heimslista FIFA sem gefinn var út í fyrsta skipti á þessu ári í dag, fimmtudag. Fáir landsleikir hafa verið síðan listinn var birtur seinast og því ekki mikil hreyfing á liðunum á listanum.
22 efstu sæti listans eru óbreytt frá seinustu útgáfu en Belgía trónir á toppnum en svo kemur Argentína og þá Spánn. Svíar eru efstir meðal Norðurlandaþjóða en þeir verma 34. sæti listans. Danir eru í 42. sætinu, Finnar í 44. sæti, Noregur í 54. sætinu og Færeyingar eru í 96. sæti listans.