Ríkharður Jónsson í Heiðurshöll ÍSÍ
Ríkharður Jónsson og Sigríður Sigurðardóttir voru tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ í kvöld en þau voru heiðruð í Hörpu þar sem íþróttamaður ársins er krýndur.
Ríkharður er einn fremsti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi en hann lék 33 landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk. Auk þess varð hann Íslandsmeistari sex sinnum með ÍA en hann lék 185 leiki með Skagamönnum og skoraði í þeim 139 mörk.
Sigríður var kjörin íþróttamaður ársins 1964, fyrst kvenna. Sigríður var ein fremsta handknattleikskona Íslands og var fyrirliði landsliðsins sem varð Norðurlandameistari árið 1964.
Þau Ríkharður og Sigríður bætast í hóp frábærra íþróttamanna sem eru í Heiðurshöllinni. Sá fyrsti sem komst í hana var Vilhjálmur Einarsson en auk hans eru þar: Bjarni Friðriksson, Vala Flosadóttir, Sigurjón Pétursson, Jóhannes Jósefsson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar Huseby og Torfi Bryngeirsson.
Ríkharður Jónsson borinn á gullstól eftir að hafa skorað öll 4 mörk Íslands í sigurleik gegn Svíþjóð á Melavelli 29.júní 1951.