• mið. 30. des. 2015
  • Landslið

Karlalandsliðið valið lið ársins - Heimir þjálfari ársins

A karla 2015

Karlalandsliðið var útnefnt lið ársins af Samtökum íþróttafréttamanna en úrslit voru kunngjörð í kvöld, miðvikudag. 

Karlalandsliðið tryggði sér á árinu sæti í úrslitakeppni EM í Frakklandi en þetta er í fyrsta sinn sem karlalandsliðið tryggir sér sæti á lokamóti í knattspyrnu. 

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, stýrir íslenska landsliðinu ásamt Lars Lagerbäck en undir stjórn þeirra náði landsliðið þessum frábærum árangri. 

Gylfi Þór Sigurðsson varð í öðru sæti í vali um íþróttamann ársins. Gylfi lék stórt hlutverk með landsliðinu á árinu sem og með félagsliði sínu, Swansea, á Englandi. 

Í kjörinu um íþróttamann ársins voru tveir aðrir landsliðsmenn í knattspyrnu en það voru þau Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir. 

Eygló Ósk Gúst­afs­dótt­ir, sund­kona úr Ægi í Reykja­vík, var útnefnd íþróttamaður árs­ins 2015.

Fréttatilkynning samtaka íþróttafréttamanna:

Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir hlaut í kvöld sæmdarheitið Íþróttamaður ársins þegar niðurstöður kosningar Samtaka íþróttafréttamanna voru tilkynntar við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu.

Eygló Ósk á frábært ár að baki í sundlauginni. Hún varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári og fyrsta sundkonan til að vinna verðlaun á stórmóti. Það gerði hún á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem fór fram í Ísrael í desember er hún vann tvenn bronsverðlaun.

Eygló Ósk varð einnig fyrsta íslenska sundkonan, ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur, til að synda til úrslita á heimsmeistaramóti í 50 m laug en það gerðu þær í Kazan í Rússlandi í ágúst. Eygló Ósk fjórbætti Norðurlandametið í 200 m baksundi á árinu og bætti þar að auki fjölda Íslandsmeta, auk þess sem hún vann mörg verðlaun á Íslandsmótum og Smáþjóðaleikum.

Gylfi Þór Sigurðsson varð í öðru sæti í kjörinu en hann er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu sem fer fram í Frakklandi á næsta ári. Hann var einnig í stóru hlutverki hjá velska liðinu Swansea sem náði besta árangri í sögu félagsins þegar það endaði tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í vor í áttunda sæti.

Hrafnhildur varð þriðja í kjörinu en auk árangursins á HM í Kazan náði hún Ólympíulágmörkum í fjórum greinum á árinu og var, ásamt Eygló Ósk, valin í keppnislið Evrópu fyrir Duel in the Pool sundkeppnina undir lok ársins.

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var valinn þjálfari ársins og karlalandsliðið sjálft var valið lið ársins með fullu húsi stiga.

Niðurstöður kjörsins má sjá hér fyrir neðan:

Íþróttamaður ársins

1. Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund) 470 stig

2. Gylfi Þór Sigurðsson (fótbolti) 350

3. Hrafnhildur Lúthersdóttir (sund) 229

4. Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti) 202

5. Fanney Hauksdóttir (kraftlyftingar) 139

6. Jón Arnór Stefánsson (körfubolti) 137

7. Aron Einar Gunnarsson (fótbolti) 128

8. Sara Björk Gunnarsdóttir (fótbolti) 63

9. Aníta Hinriksdóttir (frjálsar) 44

10. Helgi Sveinsson (íþr. fatlaðra) 29

11. Ragnar Sigurðsson (fótbolti) 16

12. Hannes Þór Halldórsson (fótbolti) 15

13. Aron Pálmarsson (handbolti) 12

14. Irina Sazanova (fimleikar) 9

15. Hanna Rún Bazev Óladóttir (dans) 8

16. Ásgeir Sigurgeirsson (skotfimi) 7

17. Dagný Brynjarsdóttir (fótbolti) 6

18. Birkir Bjarnason (fótbolti) 6

19. Ásdís Hjálmsdóttir (frjálsar) 5

20. Anton Sveinn McKee (sund) 5

21. Birgir Leifur Hafþórsson (golf) 4

22. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (golf) 4

23. Hlynur Bæringsson (körfubolti) 4

24. Þormóður Jónsson (júdó) 2

25. Helena Sverrisdóttir (körfubolti) 1

26. Júlían J. K. Jóhannsson (kraftlyftingar) 1

27. Guðbjörg Gunnarsdóttir (fótbolti) 1

28. Norma Dögg Róbertsdóttir (fimleikar) 1


Þjálfari ársins

1. Heimir Hallgrímsson 124 stig

2. Þórir Hergeirsson 69

3. Alfreð Gíslason 18

4. Dagur Sigurðsson 12

5. Kári Garðarsson 9

6. Guðmundur Guðmundsson 1

7. Þorsteinn Halldórsson 1


Lið ársins

1. A-landslið karla (fótbolti) 130 stig

2. A-landslið karla (körfubolti) 51

3. Stjarnan kvenna (hópfimleikar) 28

4. Grótta kvenna (handbolti) 20

5. A-landslið kvenna (strandblak) 5