Herragarðurinn klæðir A landslið karla á EM 2016 í Frakklandi
KSÍ og Herragarðurinn hafa gert með sér samkomulag vegna þátttöku A landsliðs karla í úrslitakeppni EM 2016. Samkvæmt samkomulaginu mun Herragarðurinn útvega leikmönnum og starfsmönnum A landsliðs karla jakkaföt sem þeir munu klæðast fyrir leiki í keppninni og við sérstök tækifæri.
Samkomulagið gildir frá undirritun til loka árs 2017, með möguleika á framlengingu.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ: „Það er að mörgu að hyggja í undirbúningi fyrir keppnina og samkomulagið við Herragarðinn um klæðnað liðsins er hluti af þeim undirbúningi. Við vitum að við erum í traustum höndum hjá Herragarðinum og klæðnaðurinn fyrsta flokks.“
Hákon Hákonarson, eigandi Herragarðsins: „Við erum stolt af því að KSÍ hafi falið Herragarðinum það verkefni að klæða leikmenn landsliðsins þegar þeir eru ekki í keppnis- eða æfingafatnaði. Um er að ræða sérsaumuð jakkaföt undir merkjum Herragarðsins, sem er ný viðbót í okkar þjónustu, auk þess sem leikmenn fá skyrtu og bindi sem passa við. Það er mikilvægt að fulltrúar okkar, sem hafa unnið hug og hjörtu þjóðarinnar, séu vel klæddir á einum stærsta íþróttaviðburði sem Íslendingar hafa tekið þátt í. Það má því með sanni segja að Herragarðurinn klæði landsliðið vel.”
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, afhenti Vilhjálmi Svan Vilhjálmssyni, verslunarstjóra Herragarðsins í Kringlunni, landsliðstreyju í tilefni af samningnum.