• þri. 08. des. 2015
  • Landslið

Svona er dregið í riðla fyrir EM 2016

UEFA EURO 2016
Logo2016_Prt_Full_OnWht

Næstkomandi laugardag verður dregið í riðla fyrir úrslitakeppni EM karlalandsliða 2016 og eins og kunnugt er verður íslenska landsliðið á meðal þátttökuþjóða í Frakklandi næsta sumar.  Drátturinn fer fram í París og hefst viðburðurinn kl. 17:00 að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á SkjáEinum.  Hér að neðan eru upplýsingar um það hvernig drátturinn fer fram.


Liðunum 24 er skipt í fjóra styrkleikaflokki (1-2-3-4) og verða þau dregin í sex fjögurra liða riðla (A-B-C-D-E-F).   Byrjað er á 1. styrkleikaflokki.  Gestgjöfunum, Frökkum, hefur þegar verið úthlutað raðnúmerinu A1, sem þýðir að Frakkland verður lið nr. 1 í A-riðli (A1).  

Í drættinum er byrjað á því að draga lið úr 1. styrkleikaflokki í sæti nr. 1 í B-riðli (B1) og svo koll af kolli í aðra riðla (C1-D1-E1-F1).  Liðum úr efsta styrkleikaflokki er sjálfrafa úthlutað raðnúmerinu 1.  Raðnúmerið ákvarðar niðurröðun leikja viðkomandi liðs innan riðilsins.  Þegar liðin úr efsta styrkleikaflokki hafa verið dregin í riðla með þessum hætti er næst farið í 4. styrkleikaflokk, þar sem Ísland er.

Fyrst er dregið lið í A-riðil.  Þá er strax dregið um raðnúmer þess liðs innan riðilsins (2-3-4).  Eins og greint er frá hér að ofan ákvarðar raðnúmerið niðurröðun leikja viðkomandi liðs innan riðilsins.  Þá er næsta lið úr 4. styrkleikaflokki dregið í B-riðil, dregið raðnúmer fyrir það lið, og svo koll af kolli fyrir aðra riðla.  Næst er haldið í 3. styrkleikaflokk og sama aðferð notuð, og að lokum fyrir 2. styrkleikaflokk.



Drátturinn verður í beinni sjónvarpsútsendingu á SkjáEinum