Kvennlandsliðið fékk milljón króna styrk
Kvennalandsliðið fékk í vikunni milljón króna styrk úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ vegna verkefna á árinu 2016. Afrekssjóðurinn afhenti alls 3.5 milljónir sem fóru til fjögurra sérsambanda en alls bárust 39 styrkbeiðnir.
„Á undanförnum árum hefur íslenska kvennalandsliðið verið framarlega í flokki á heimsvísu í knattspyrnu og meðal annars unnið sér þátttökurétt í lokakeppni EM 2009 og 2013. Nú er nýhafin undankeppni EM og verður úrslitakeppnin í Hollandi 2017 en þangað stefnir liðið. Baráttan er hörð enda eru aðrar þjóðir í Evrópu í mikilli sókn í kvennaknattspyrnu. Liðið hefur leikið þrjá leiki til þessa í keppninni og stendur ágætlega að vígi en fleiri leikir eru framundan allt fram á næsta haust þegar undankeppninni lýkur.”
Sjóðsstjórn er skipuð Helgu H. Magnúsdóttur, Elsu Nielsen og Kristínu Rós Hákonardóttur en það voru landsliðskonurnar Margrét Lára Viðarsdóttur og Hólmfríður Magnúsdóttir sem tóku við styrknum ásamt Guðrúnu Ingu Sívertsen, varaformanni KSÍ..