Heimir: Hugsum fyrst og fremst um okkur
A landslið karla mætir Póllandi og Slóvakíu í tvemur vináttulandsleikjum í nóvember. Fyrri leikurinn er við Pólverja á föstudag og leikurinn við Slóvaka í Zilina fjórum dögum síðar. Annar þjálfara íslenska liðsins, Heimir Hallgrímsson, svaraði nokkrum spurningum fréttaritara ksi.is í Varsjá.
Menn fá ekki marga æfingaleiki. Eru þeir notaðir til að prófa nýja hluti í leikaðferð eða uppstillingu, nýja leikmenn, eða til að vinna meira í grunninum?
Allavega núna, þá ætlum við að nota þessa leiki til að vinna áfram í grunninum, en í leiðinni að skoða nýja leikmenn, sem hafa verið minna, eða jafnvel ekkert verið með okkur.
Nokkrir leikmenn eru í hópnum nú sem hafa verið á jaðrinum síðustu ár og leika stórt hlutverk í sínum félagsliðum. Er þetta val til marks um góða breidd og stækkandi hóp leikmanna sem þjálfararnir hafa úr að velja?
Við vonum að það sé einmitt það sem þetta þýðir. Við höfum verið fastheldnir á hópinn, og það hefur verið góður liðsandi. Við höfum verið að spila svo mikilvæga leiki og það hefur vegið þyngra að halda stöðugleika í þeim en að skoða nýja leikmenn. Núna er góður tími til þess.
Hvernig markmið setur þjálfarateymið sér fyrir þessa leiki?
Markmið númer eitt hjá okkur er alltaf að reyna að vinna leikina og finna okkar leið til þess. Hitt markmiðið með báðum þessum leikjum er að sjálfsögðu að skoða nýja leikmenn og sjá hvernig þeir virka í okkar umhverfi og í okkar leikkerfi. Þett verkefni gefur okkur líka tækifæri til að horfa aðeins lengra inn í framtíðina, með því að skoða þessa leikmenn og sjá þá æfa og spila með sterkum samherjum.
Lið Slóvakíu er kannski ólíkt því pólska. Á meðan Pólverjarnir eru með sterkt sóknarlið byggja Slóvakarnir á góðu skipulagi og öguðum varnarleik, ekki ólíkt íslenska liðinu. Nálgast menn þessa tvo leiki með ólíkum hætti?
Við hugsum fyrst og fremst um okkur og reynum að bæta okkar leik. En auðvitað hefur andstæðingurinn og hans leikaðferð eitthvað um það að segja hvernig við spilum. Þannig að ef það er eitthvað sem við þurfum að bæta eftir fyrri leikinn, þá munum við hafa það til hliðsjónar í seinni leiknum. Við munum þó ekki leggja of mikla áherslu á andstæðinginn eða taka of mikinn tíma í að leikgreina hann, heldur leggjum fyrst og fremst áherslu á að þróa okkar leik.