• mán. 26. okt. 2015
  • Landslið

Öruggur sigur Íslands í Slóveníu

Island-KVK-2015

Ísland vann í dag öruggan 0-6 sigur á Slóveníu í undankeppni EM. Þetta var jafnframt þriðji sigur Íslands í undankeppninni en Ísland er því með 9 stig eftir þessa þrjá leiki eða fullt hús stiga.

Dagný Brynjarsdóttir braut ísinn á 15. mínútu þegar hún sólaði markmann Slóveníu og skoraði laglegt mark. Þetta var forsmekkurinn af því sem koma skyldi en á 20. mínútu kom Harpa Þorsteinsdóttir Íslandi í 2-0. Harpa komst ein í gegn og átti ekki í vandræðum með að skora framhjá markmanni Slóveníu. 

Hólmfríður Magnúsdóttir lék sinn 100 leik fyrir Ísland í leiknum en því miður þurfti hún að fara meidd af velli á 25. mínútu. Hólmfríður missti af seinasta leik sökum meiðsla og þau virðast hafa tekið sig upp að nýju. 

Staðan var 0-2 í hálfleik. 

Slóvenar komu hressari til leiks í seinni hálfleik og fengu dauðafæri til að minnka muninn á 50. mínútu en skot Slóvena fór rétt framhjá marki. Ísland náði samt að setja þriðja markið en það var Harpa Þorsteinsdóttir sem skoraði það á 66. mínútu með harðfylgi og kom Íslandi í 0-3. Það liðu ekki nema nokkrar mínútu þar til Margrét Lára Viðarsdóttir tók aukaspyrnu að marki Slóvena og eftir viðkomu í varnarmanni þaðan fór boltinn í markið. 

Næst var röðin komin að Söndru Maríu Jessen sem skoraði laglegt mark á 80. mínútu eftir að þrír leikmenn Íslands voru komnir í góða stöðu í vítateig Slóveníu. Dagný Brynjarsdóttir var aftur á skotskónum stuttu síðar er hún skoraði sjötta mark Íslands. 

Harpa Þorsteinsdóttir hefði getað náð þrennu í leiknum þegar Ísland fékk víti undir lok leiksins en markmaður Slóvena sá við Hörpu og varði. 

Lokatölur urðu 0-6 sigur Íslands en Skotar eru þó í efsta sæti eftir 4-1 sigur á Makedóníu og markatöluna 14-1. Ísland er með markatöluna 12-0 

Slóvenía 0-6 Ísland (0-2)

0-1  Dagný Brynjarsdóttir 15.mín.
0-2  Harpa Þorsteinsdóttir 20.mín.
0-3  Harpa Þorsteinsdóttir 66.mín.
0-4  Margrét Lára Viðarsdóttir 70. mín.
0-5  Sandra María Jessen 80.mín.
0-6  Dagný Brynjarsdóttir 86.mín.