• fim. 22. okt. 2015
  • Landslið

A kvenna - Öruggur sigur gegn Makedóníu í undankeppni EM

Island-A-kvenna-2015-1

Ísland vann öruggan 0-4 sigur á Makedóníu í undankeppni EM en leikurinn fór fram við erfiðar aðstæður í Skopje. Völlurinn var mjög blautur og pollar víða á vellinum sem gerðu leikmönnum erfitt fyrir með spilamennsku. 

En stelpurnar okkar létu það ekki á sig fá og strax á 9. mínútu kom Margrét Lára Viðarsdóttir Íslandi yfir í leiknum. Það liðu ekki nema þrjár mínútur í næsta mark Íslands en það var Glódís Perla Viggósdóttir sem skoraði glæsilegt mark. Glódís fékk boltann fyrir utan vítateig og hamraði boltann óverjandi í mark Makedóníu en markið kom á 12. mínútu leiksins. 

Stuttu síðar eða á 17. mínútu þá var staðan orðin 3-0 en það var Harpa Þorsteinsdóttir sem skoraði markið. Margrét Lára var aftur á ferðinni á 30. mínútu en þá skoraði hún sitt 74. landsliðsmark. Margrét fékk laglega sendingu í gegnum vörn Makedóníu og skoraði örugglega. Staðan orðin 0-4 fyrir íslenska liðinu. 

Leikurinn var ekki eins fjörugur í seinni hálfleik enda tók ansi hressilega á að leika á blautum vellinum og það sást á báðum liðum að vallaraðstæður tóku sinn toll. Íslenska liðið fékk góð færi til að skora í seinni hálfleiknum en leikmenn höfðu ekki erindi sem erfiði og leiknum lauk með 0-4 sigri Íslands. 

Næsti leikur íslenska liðsins er á mánudaginn gegn Slóveníu og er leikurinn sýndur beint á RÚV.