• fös. 09. okt. 2015
  • Landslið

Ísland mætir Lettlandi í dag klukkan 16:00

Island A karla

Karlalandsliðið leikur í dag við Lettland í undankeppni EM. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst klukkan 16:00. Íslenska liðið er í góðri stöðu í riðlinum en liðið trónir á toppnum með 19 stig eins og Tékkar en Ísland er með mun betri markamun eða 12 mörk en Tékkar eru með 6 mörk í plús. 

Sigur gegn Lettlandi ætti því að sjá til þess að Ísland haldi toppsætinu en Tékkar eiga nokkuð erfiðan leik fyrir höndum gegn Tyrkjum á heimavelli. Íslenska liðið er þegar búið að tryggja sæti sitt í Frakklandi en stefnan er sett á að vinna leikina sem eftir eru til að tryggja Íslandi sigur í riðlinum. 

Fyrri leik liðanna lauk með 0-3 sigri Íslands í Lettlandi þar sem Gylfi Þór, Aron Einar og Rúrik skoruðu mörkin í leiknum.

Við hvetjum alla til að mæta snemma á Laugardalsvöllinn til að missa ekki af neinu í leiknum en blásið er til leiks stundvíslega klukkan 16:00.

Fleiri upplýsingar og viðtöl má finna í leikskrá fyrir leikinn og þú getur skoðað hana með því að smella hérna.