Leitin að framtíðarleikmönnum landsliðsins
Um 600 ungmenni tóku þátt í Hæfileikamótun KSÍ og N1 sem lauk nú um helgina með fótboltamóti drengja í Kórnum í Kópavogi, en stúlknamótið fór fram helgina 19.-20. september.
Þetta er annað sumarið sem Hæfileikamótun KSÍ og N1 er haldið. Að þessu sinni tóku 600 ungmenni þátt, víðsvegar af landinu. Fótboltalið um allt land fengu heimsóknir frá þjálfurum KSÍ sem stóðu fyrir fræðslu og mátu jafnframt getu leikmanna á aldrinum 13 til 14 ára í þeirri von að finna framtíðarleikmenn landsliðsins.
Í kjölfarið bauðst 200 upprennandi íþróttamönnum, 95 drengjum og 82 stúlkum, að taka þátt í Hæfileikamótun í Kórnum og landsliðsþjálfurum gafst tækifæri til að fylgjast með þeim spila.
“Það er okkur í knattspyrnuhreyfingunni mikið ánægjuefni að fá jafn öflugan bakhjarl og N1 til liðs við okkur í þessu mikilvæga verkefni sem Hæfileikamótunin er. Verkefnið hefur heppnast afar vel, sem sést sérstaklega á því hvað fjöldi þátttakenda hefur vaxið milli ára.” segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Í ár fóru þjálfarar KSÍ víða en þeir heimsóttu m.a. leikmenn á höfuðborgarsvæðinu, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum, Höfn, Reyðarfirði, Akureyri, Ísafirði og Borgarbyggð.
“N1 starfar um land allt og leggjum við mikið uppúr því að styðja við uppbyggingu ungmenna- og íþróttastarfs í byggðum landsins. Því er það sönn ánægja að koma að þessu verkefni ásamt KSÍ, að finna landsliðsfólk framtíðarinnar.” segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1.
Fleiri myndir frá hæfileikamótun N1 og KSÍ munu birtast á Faecbook-síðu KSÍ á næstu dögum