• mið. 30. sep. 2015
  • Leyfiskerfi

Ráðstefna UEFA um leyfismál haldin í Dubrovnik

UEFA
2068034_w4

Í september var árleg ráðstefna UEFA um leyfismál haldin í Dubrovnik í Króatíu.  Ráðstefnuna sátu um 150 fulltrúar frá öllum aðildarlöndum UEFA, auk sérstakra gesta frá FIFA og öðrum álfusamböndum – Afríku, Asíu, Norður- og Mið-Ameríku, Suður-Ameríku og Eyjaálfu – en þessi sambönd vinna nú að því að taka upp leyfiskerfi í sínum álfukeppnum félagsliða, og eru þau kerfi byggð upp á leyfiskerfi UEFA fyrir Evrópudeild og Meistaradeild.

Á ráðstefnunni var farið yfir ýmis mál tengd leyfiskerfum UEFA og aðildarlandanna, þar á meðal breytingar á leyfisreglugerð milli ára.  Á meðal breytinga má nefna áherslu UEFA á að fötluðum verði tryggður aðgangur, aðstaða og þjónusta við hæfi á leikvöngum, og styrkingu kröfu um menntun unglingaþjálfara, sem nú er orðin A-krafa en var B-krafa áður. 

Þessi breyting á kröfu um menntun unglingaþjálfara þýðir að félag sem ekki uppfyllir settar kröfur í þeirri grein leyfisreglugerðarinnar á það á hættu að geta ekki fengið útgefið þátttökuleyfi, en fyrir breytinguna hefði félagið verið beitt viðurlögum (aðvörun, áminning, sekt).  Um er að ræða umtalsverða breytingu og gríðarlega mikilvægt að íslensk félög sem hyggjast ráða nýja þjálfara unglingaflokka á næstunni hafi þetta í huga.