• sun. 20. sep. 2015
  • Landslið

Kvennalandsliðið á allra vörum

A-allra-vorum---A-kvenna---LB---2015---0038

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sneri í dag bökum saman í baráttunni gegn einelti. Af því tilefni færði Landsbankinn öllum leikmönnum landsliðsins glæsilegt Á allra vörum-varasett, en bankinn er bakhjarl bæði landsliðsins og landssöfnunarinnar. 

Kynningar- og fjáröflunarátak Á allra vörum gegn einelti og fyrir bættum samskiptum meðal barna og ungmenna stendur nú sem hæst en það nær hápunkti með landssöfnun á Rás 2 og í sjónvarpinu föstudaginn 25. september.   

Landsliðskonurnar eru mjög stoltar af því að styðja baráttu Á allra vörum gegn einelti – utan vallar sem innan. Þær verða í eldlínunni á Laugardalsvelli á þriðjudag þegar þær mæta Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum í undanriðli EM.   

Markmið söfnunarinnar er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum. Samskiptasetrið verður sett á stofn í samvinnu við samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða sem nefnast Erindi. 

Þau hafa það markmið og hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum.


Landsliðshópur kvenna í knattspyrnu er á allra vörum. Með landsliðinu eru Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum og Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir forsvarskonur Á allra vörum en þær færðu öllum í liðinu varasett að gjöf.