Breyttur leikstaður í Tyrklandi
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur, í samráði við Knattspyrnusambönd Tyrklands (TFF) og Íslands (KSÍ), ákveðið að breyta leikstað fyrir leik Tyrklands og Íslands í undankeppni EM karla 2016, en liðin mætast í Tyrklandi þann 13. október næstkomandi. Til stóð að leika á nýjum leikvangi í borginni Bursa, en nú liggur fyrir að sá leikvangur verður ekki tilbúinn á tilsettum tíma. Leikstaðurinn verður því Konya Büyükşehir Stadium í Borginni Konya, sem hefur þegar verið vettvangur tveggja heimaleikja Tyrkja í undankeppninni - gegn Lettum og Hollendingum.